<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, ágúst 31, 2003

Hæ öll og afsakið töfina á blogginu. Ívar er nefnilega kominn:). Hann komst sem sagt heilu og höldnu hingað eftir nokkurra tíma töf á flugvél Iceland Express. Ég náði í hann út á flugvöll og var voðalega ánægð að sjá hann. Ég fór svo bara með hann “heim” í leigubíl en ferðin tók óratíma út af einhverri umferðarteppu. Honum leist bara vel á íbúðina. Við fórum svo niður í bæ og fengum okkur almennilegan mat á Rosie Mcgees. Eini staðurinn sem ég mundi eftir í fljótu bragði frá því við stelpurnar vorum hérna fyrir þremur árum á Tinu tónleikunum.

Í gær svaf Ívar í u.þ.b. 12 tíma!! enda mjög þreyttur. Við komum okkur svo loks út úr húsi og fórum í Ikea sem er í Gentofte. Tíminn leið vægast sagt hratt þarna enda rosalega stór búð. Þegar við vorum svo loksins búin að velja okkur rúm og dýnu þá var ekki allt til á lager þannig að við þurfum að koma aftur á mánudag eða þriðjudag. En við áorkuðum það að kaupa gardínur og náðum að setja þær upp í herberginu sem við sofum en hin herbergin eru eftir... Gerðist svo sem ekki margt markvert annað í gær.

Jæja, framundan er bissí dagur. Þurfum að þvo gólfin hérna, fara í bókabúð og kaupa okkur eitthvað dót fyrir skólann, svo kemur Jesper og við gerum húsaleigusamning ... o.s.frv.

Gaman annars að lesa gestabókina þið sem skrifið í hana. Þið hin megið endilega skrifa eitthvað smotterí:=)

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Fór til Guðnýjar í mat í gær á Öresundskollegiet og leist bara ágætlega á það. Gæti alveg hugsað mér að flytja þangað. Að vísu eru byggingarnar svo sem ekkert flottar, smá sovétfílíngur á þeim. Guðný eldaði rosalega gott chilli-con-carne og við kjöftuðum allt kvöldið. Ég var ekkert á þeim buxunum að fara neitt frá henni og fékk bara að gista. Ívar hringdi svo til hennar og þá var hann á leiðinni til Víkur í Mýrdal og ætlaði að leggja af stað snemma til Reykjavíkur.

Ég heyrði svo í honum þegar hann kom til Reykjavíkur enda var ég búin að fá símakortið mitt sent. Ég er sem sagt komin með gemsanúmerið 30230578 ef þið viljið hringja.

Þannig að Ívar kemur á settum tíma til Danmerkur á morgun. Farin að hlakka ansi mikið til að sjá mússa minn;)

Leyfi honum svo að taka næsta blogg.

Hafið það gott og skrifið endilega í gestabókina til mín eða sendið meil á svana78@mi.is.

miðvikudagur, ágúst 27, 2003

Ekki batnar nú ástandið. Pabbi var að segja mér að þyrlan hefði verið að leggja af stað að ná í fólkið í Kringilsárrana en það liti út fyrir að það gæti tekið allan daginn þar sem veðurhorfur væru ekki góðar. Skil ekki alveg hvernig Ívar á að ná að koma sér til Reykjavíkur, pakka og taka flugvélina til Danmerkur snemma á föstudagsmorgun. Þetta á amk eftir að verða ansi tæpt!

Ég á eftir að fara á taugum...

þriðjudagur, ágúst 26, 2003

Biðdagurinn mikli!
Vaknaði snemma og fékk smá þrif-æði og þreif baðherbergið, sem er reyndar ekki nema ca. 2 fermetrar. Svo átti ég von á flutningabíl sem átti að koma með dótið okkar úr skipinu kl. tíu. Selma og Hlín vinkona hennar lögðu á sig klukkutíma ferðalag í strætó til að hjálpa mér að bera draslið upp þar sem þessir bílstjórar nenna víst ekkert að hjálpa manni. Við biðum svo og biðum og klukkan hálfellefu hringdi ég í kallinn sem vinnur fyrir Samskip hérna úti og þá kom í ljós að hann hafði reynt að ná í mig í gær en þar sem ég er ekki með síma hérna enn þá þurfti hann að hringja til Íslands og enginn svaraði. Hann ætlaði að tilkynna mér að dótið kæmist ekki kl. tíu þar sem gámnum hefði seinkað. Ég hringdi þá í hann úr Selmu síma og þá sagði hann að þetta gæti komið kl. fjögur. Þá geri ég önnur plön og bögga næstu vinkonu, hana Guðnýju. Hún kemur svo á réttum tíma en var í tímaþröng þar sem hún var að fara með vinkonu sína út á flugvöll kl. 6. Klukkan fimm er enginn bíll kominn og við hringjum og þá kemur í ljós að bíllinn er fastur í umferð og Guðný notar dönskuna og röflar eð í kallinum og hann sættist á að hjálpa mér upp með dótið. Guðný þýtur þá af stað og enn bíð ég eftir bílnum. Hann kom loksins klukkan hálfsex. Er þetta alveg normal spyr ég bara? Ég fer bara að verða hokin af reynslu hérna úti og bara búin að vera í nokkra daga. Get kannski hlegið að þessu seinna... hver veit. Kallinn hjálpaði mér svo með þyngstu hlutina upp en hitt fór bara í stigaganginn og ég rogaðist með það upp þegar hann var farinn. Það var ágætis workout.

Smá meiri neikvæðni áður en ég kem að því jákvæða:) Áðan sögðu mamma og pabbi mér á msn að Ívar hefði verið að hringja úr gervihnattasímanum á hjara veraldar (gæti allt eins verið það). Hann var sem sagt ekki lagður af stað þar sem það skall á þoka og þyrlan sem átti að sækja liðið og flytja að Kárahnjúkum, komst ekki. Æðislegt! Til að bæta gráu ofan á svart þá vilja þessir blessuðu ligeglad danir sem eru með honum í þessu helst ekki keyra í einum rykk til Reykjavíkur, finnst það e-ð óþægilegt. Þannig að Ívar kemst ekki til Reykjavíkur fyrr en á fimmtudag og þá byrjar eitthvað pökkunarmaraþon hjá honum. ... möguleiki að hlæja líka að þessu seinna.. jú kannski.. sjáum til..

Það var nú samt eitthvað jákvætt við daginn: Hitti Guddu og fékk dönsku kennitöluna í pósti, bara 2 virkum dögum eftir að ég skráði mig inn í landið (tekur venjulega 2 vikur). Það þýddi náttúrulega að ég gat pantað mér ódýra símakortið á netinu og það ætti að koma eftir fáeina daga og þá kemst ég loksins í símasamband. Spurning hvort sparnaðurinn er þess virði, m.v. allt vesenið sem hlotist hefur af símaleysinu.

mánudagur, ágúst 25, 2003

Fínt veður í dag. Fór í skólann til að innrita mig í kúrsa af því að konan sem sér um skráningar sagði að það væri ekkert mál að gera það bara þegar ég kæmi. Í dag sagði hún mér svo að það væri fullt í einn kúrsinn sem ég ætlaði að taka. Ömurlegt!!! Hún sagði að ég gæti reynt að tala við þann sem kennir en hann var ekki við þannig að ég er búin að senda honum t-póst og útskýra málið. Ætla rétt að vona að ég komist inn því að þetta er eiginlega sá kúrs sem ég var ákveðnust í að taka. Týpískt.

Ég fór náttúrulega bara út úr skólanum með grátstafina í kverkunum og ráfaði bara um göturnar og niður á Strik. Náði aðeins að gleyma mér í búðunum. Ekki það að ég hafi gleymt mér í einhverjum fatakaupum. Keypti bara klósettbursta!!- sorglegt alveg:) Var samt ekki í stuði til að byrja á stórhreingerningunni strax. Læt það bíða til morguns og ætla að skreppa til Selmu í mat. Hún nær örugglega að hughreysta mig eitthvað:)

Svo kemur bara dótið sem ég setti í gáminn á morgun þannig að það verður nóg að gera og þá verður sko byrjað á hreingerningunni. Vona að það verði rigning...

Hej hej

sunnudagur, ágúst 24, 2003

Rólegur dagur í dag.

Ótrúlega fínt veður, sól og 25 gráðu hiti. Þurfti að hanga inni og bíða eftir eigenda íbúðarinnar þar sem hann var búinn að skrifa á miða þegar ég kom að hann myndi kíkja við á sunnudag en sagði náttúrulega ekkert kl. hvað. Sem betur fer eru svalir hérna sem ég hef geta setið úti á í góða veðrinu. Reyndar rokið inn við og við þegar geitungar eða drekaflugur hafa komið nærri:). Jæja nú heyrist mér Jesper vera að koma...

---

Jesper kominn og farinn. Líst rosalega vel á hann, áreiðanlegur gaur og traustvekjandi. Hann er sennilega tæplega þrítugur og er að læra rafmagnsverkfræði á Jótlandi. Kemur þaðan í janúar og ætlar þá að flytja hingað inn með kærustunni og gera íbúðina eð upp.

Hann kom sem sagt og tók allt draslið sitt og setti niður í geymslu þannig að nú er íbúðin aðeins fínni. Einnig lagaði hann sjónvarpið þannig að nú get ég farið að glápa í kvöld:) Hann gaf mér líka upp mail serverinn hérna og nú get ég farið að nota nýtt tölvupóstfang (svana78@mi.is – ekki mjög flott en það voru öll önnur sem ég bað um upptekin – 78 stendur sem sagt fyrir fæðingarárið ef það hjálpar ykkur að muna:)). ADSL er sem sagt innifalið í þessum 6000 dkk sem við borgum á mánuði, sem og hiti, rafmagn, vatn og afnot af húsgögnum, sjónvarpi, dvd o.fl. Held þetta sé mjög vel sloppið. Já svo er líka símatenging hérna og þegar við erum búin að fá okkur síma er hægt að fara að hringja í okkur. Síminn er 39294859 (og svo auðvitað 0045 út úr Íslandi).

Jesper fór með mig upp og kynnti mig fyrir honum Claus sem á íbúðina fyrir ofan, þaðan sem lætin koma! Íbúðin er gjörsamlega í rúst og hann er að endurnýja allt og einangra upp á nýtt. Hann baðst mikið afsökunar á hávaðanum og sagði að hann yrði aðallega að þessu um helgar. Sem sagt ekki miklar líkur á að maður sofi út... En Claus virkaði vel á mig.

Í húsinu eru sem sagt engin grenjandi börn bara ungt fólk. Gott ef maður á að geta lært eitthvað. Ekki það að ég hafi neitt á móti börnum ;-).

Læt þetta gott heita í kvöld, ha det bra.
Góða nótt.





laugardagur, ágúst 23, 2003

Rok!
Hvað er málið? Það er búið að vera rok þessa þrjá daga sem ég hef verið hérna. Vona að þetta fari nú eitthvað að lagast.

Annars var bara fínt í dag. Skrapp á Amager kollegiet í heimsókn til Siggu Birnu og tók neðanjarðarlestina þangað. Gekk aðeins brösulega en reddaðist að lokum. Sigga Birna myndarlega eldaði fínan mat og ég át á mig gat. Svo röltum við aðeins um í nágrenninu.

Væri alveg til í að vera á þessu kollegie. Mjög snyrtilegt og fínt. Við reynum að troða okkur þar inn eftir að við missum þessa íbúð.

Pínu svekkt að hafa misst af jarðskjálftunum sem voru heima í nótt. Frétti af honum í gegnum Íslending sem ég hitti á lestarstöðinni.

Pirr dagsins: Maðurinn á hæðinni fyrir ofan mig virðist vera að gera íbúðina sína upp og rífa niður veggi og guð má vita hvað. Vona að lætin verði ekki svona mikil þegar maður þarf að fara að læra!

Bros dagsins: Danskar samgöngur eru góðar og þetta er frábær síða: www.dsb.dk. Maður getur slegið inn nákvæmlega frá hvaða húsi maður er að fara og í hvaða hús og fengið leiðina uppgefna (á hvaða strætó- / lestarstöð maður þarf að ganga og hvaða strætó/lest maður tekur þaðan, klukkan hvað o.s.frv. ). Íslendingar mættu taka sér þetta til fyrirmyndar. Ég reyni kannski að bæta úr því þegar og ef ég verð fullnuma í GIS/LUK fræðum (landfræðileg upplýsingarkerfi):-)

föstudagur, ágúst 22, 2003

2.dagur! ...og bara vika þangað til Ívar kemur:-)
Svaf ekkert alltof vel þessa fyrstu nótt mína hérna, enda ekki við því að búast. Sef á svampdýnum sem ég er búin að stafla upp og þær eru ekkert alltof æðislegar. Vaknaði til dæmis með frekar litla tilfinningu í útlimunum. Ég dröslaði mér svo út um ellefu leytið spennti upp regnhlífina því að það var rigning og rok (ömurlegt veður) og fór á strætóstöðina og tók þar strætó númer 39 á Tagensvej og tók þar annan nr. 6A á Östervoldgade þar sem skólinn er. Já, ég er sem sagt komin með þessar strætóleiðir sæmilega á hreint en ligg samt soldið yfir Kraks kortinu mínu og reyni að átta mig á hvar ég á að fara út. Svo kalla strætóbílstjórarnir oftast upp næstu stopp sem er mjög þægilegt fyrir vitlausa útlendinga... eða nýbúa/innflytjendur:-) þótt bílstjórarnir tali nú enga drottingardönsku!

Jæja, ég fór sem sagt í skólann til að skrá mig í kúrsa en þá var konan sem sér um það á leiðinni heim og gat ekki tekið við mér. Fer bara á mánudag. Hins vegar gat ég aðeins skoðað mig um í skólanum og líst bara ágætlega á. Jarð- og landfræðihúsið er aðeins stærra og flottara en heima! Auðvelt að villast.

Í skólanum fékk ég svo leiðbeiningar um hvert ég átti að fara til að skrá mig inn í landið, Dahlerupsgade 6. Gekk þangað enda ekki mjög langt frá skólanum og skráði mig hjá Köbenhavns Kommune (n.k. þjóðskrá Danmerkur) og gekk það mjög auðveldlega og ég gat barasta auðveldlega gert mig skiljanlega á dönsku. Fékk þar úthlutaðan lækni sem er nærri Haraldsgade og svo fæ ég senda kt. og sjúkratryggingakort í pósti innan 14 daga. Kennitöluna væri þægilegt að fá aðeins fyrr þar sem ég þarf að nota hana til að kaupa ódýrasta kortið í farsímann minn (telmore.dk). Selma segir að það sé ódýrasta kortið og ég fer náttúrulega eftir því og verð bara án farsíma þangað til ég fæ kennitöluna mína. Maður verður að halda vel utan um peningana. (Ívar: þú getur sem sagt bara hringt í Selmu ef þú þarft að ná í mig þegar þú kemur til Reykjavíkur, annars verð ég líka á msn:)).

Eftir skráninguna rölti ég bara niður á Ráðhústorg og þaðan á Strikið. Kíkti í búðir og þegar ég kom inn í H&M heyrði ég ekkert nema íslensku enda Íslendingar óðir í þessa búð. Ég verslaði hins vegar ekkert heldur rölti bara á kaffihús og fékk mér að borða. Síðan kíkti ég í skóbúðina þar sem Selma vinnur og spjallaði aðeins við hana. Hún sagði mér að Stuðmenn kæmu sennilega að spila í Tívolíinu 13.sept. og við Ívar eigum sko pottþétt eftir að fara, veit að hann tekur ekki annað í mál.

Best að drífa sig í yndislega rúmið:) og reyna að sofna. Gæti gengið erfiðlega þar sem það er föstudagskvöld og meiri umferð og meira gól af götunni. Rétt í þessu var hópur af fullum unglingum (ekki eldri en 13-14 ára) að rífast á strætóstoppustöðinni hérna fyrir utan. Sem betur fer er strætóinn þeirra kominn og farinn!

Góða nótt :)


fimmtudagur, ágúst 21, 2003

Jæja, þá er maður kominn til kóngsins Köben en er samt ekki alveg búinn að ná því ennþá. Er sem sagt komin í íbúðina sem við ætlum að vera í fram í janúar ef allt gengur að óskum. Íbúðin er staðsett á Haraldsgade 75 á Österbro. Hverfið virðist vera ágætt og nauðsynlegar búðir nálægt. Nettó er bara úti á horni og er ég búin að fara í hana. Það er víst ódýrasti kosturinn en ég get ekki alveg sagt að ég sé ánægð með úrvalið og þetta er líka pínu sjabbí.

Íbúðin er alveg ágæt bara en ekkert gríðarlega vel þrifin, enda karlmaður hérna á undan okkur!!! Hún er nokkuð stór og með einhverjum húsgögnum og drasli frá eigandanum. Hér eru viðargólf og ískrar nokkuð mikið í sumum fjölunum:). Segi ykkur betur frá íbúðinni seinna þegar ég er ekki alveg svona þreytt. Ætla bara að skella mér í háttinn........ á dýnur sem ég sef á til að byrja með og með engar gardínur fyrir gluggum!!! Pínu frumstæð skilyrði til að byrja með en það lagast vonandi.

Góða nótt vinir nær og fjær, sakna ykkar óttalega mikið:=)

miðvikudagur, ágúst 20, 2003

Bara að prófa hvort þetta virkar áður en ég held til Köben

This page is powered by Blogger. Isn't yours?