<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, september 30, 2003

Ennþá er ég að prófa commenta-kerfið og núna er ég loksins búin að finna út hvernig á að hafa íslenskuna og geta haft mismunandi eftir því hvort eintala eða fleirtala. Þetta er bara alveg ótrúlega gaman.... er alveg að breytast í tölvunörra...

mánudagur, september 29, 2003

Varð bara að skrifa enn einu sinni í dag. Við vorum að borða rétt í þessu og heyrðum allt í einu þvílík bjölluhljóð. Hvað haldiði...... ísbíllinn á ferð og hann stoppaði rétt fyrir utan dyrnar hjá okkur. Það er bara rífandi bisness hjá kallinum... fólk streymir hvaðanæva úr hverfinu... hhahahahaa, sæi þetta fyrir mér á Íslandi.

Vorum aðeins að lífga upp á lúkkið á síðunni. Vorum orðin pínulítið leið á þessum appelsínugula:). Er´ett´ekki fínt?

Brrrrrr.......
Nú þykir manni orðið kalt í Köben. Það er ca. 10 gráðu hiti og rigning núna en mun kaldara í morgun og maður þurfti að hjóla allhressilega til að að halda á sér hita á leiðinni í skólann. Guði sé lof fyrir dúnúlpuna sem ég keypti um helgina.

Helgin var annars bara mjög fín. Rölti í bænum með Örnu og horfði á hana strauja kreditkortið sitt. Við reyndum í gríð og erg að finna dress fyrir brúðkaupið hennar Kris en ekkert gekk. Ég er farin að halda að ég þurfi að fara beint í búðir þegar ég kem heim eða vera bara í gömlum lörfum. Geri aðra tilraun við búðirnar hér næstu helgi, þó ég nenni því ómögulega. Örnu tókst að kaupa fullt af fötum og var hin ánægðasta þegar hún fór. Við fórum út að borða á laugardagskvöldið og kíktum á kaffihús. Þegar við komum heim hringdum við svo beint í gæsapartýið hennar Kris. Þar var rífandi stemmning og gæsin hafði greinilega skemmt sér vel þennan dag þrátt fyrir að hafa verið pínd aðeins á almannafæri. Mig vantar reyndar allt slúður úr partíinu þannig að vinkonur eru vinsamlegast beðnar að senda skýrslu hið fyrsta.... Gæsin virðist ekki svara t-pósti... er ekki örugglega allt í lagi með hana??? Svo verð ég að fá afrit af vídeóupptökunni frá deginum.

Við Ívar lærðum svo yfir okkur allan gærdaginn og horfðum svo á Nikolaj og Julie sem var án efa uppáhaldsþátturinn okkar síðasta vetur. Því miður virðist RÚV vera soldið á eftir áætlun með þessa þætti þannig að okkur vantar miðjuseríuna inn í.

Við fórum í Nettó áðan með fullan poka af tómum dósum (.... allt undan sodavatni... hmmm....) og við fengum 100 danskar fyrir tæplega 30 flöskur!!! Stór gosflaska er 50 krónur!!! Ekki skrýtið að gos sé dýrt hérna. Hér hendir allavega enginn plasti, svo mikið er víst. Rónarnir sjá þá allavega um að hirða þær flöskur sem einhver hefur hent, enda eru þeir tíðir gestir við flöskugleypana í Nettó.

Jæja, nenni ekki að skrifa meira í dag. Sendið mér endilega t-póst og segið mér hvað drífur á daga ykkar:)

fimmtudagur, september 25, 2003

Arna beib er í heimsókn hjá okkur núna og það er bara enginn tími til að blogga en núna situr hún límd fyrir framan sjónvarpið að horfa á Charmed!!! Einhvern veginn get ég ekki alveg sett mig inn í þátt um þrjár súpergellur með súpernornakrafta. Arna er aðeins gengin í barndóm aftur held ég. Hún hefur nú reyndar alltaf lifað sig einum of mikið inn í bíómyndirnar. Við erum að tala um að þegar hún fór í fyrsta skipti í bíó þegar hún var lítil þá bæði kastaði hún upp og pissaði í sig. Mig minnir að það hafi verið á E.T.

Annars er æðislegt að fá hana í heimsókn. Þótt Ívar sé yndislegur þá er nú ágætt að spjalla við aðra endrum og sinnum:). Ég gat reyndar ekkert verið með Örnu í dag þar sem ég þurfti að vera í skólanum en hún afrekaði heilmikið. Fór í bæinn og kom hlaðin pokum til baka. Ég kíki kannski með henni á búðarölt á morgun eftir skóla.

Því miður hefur hitastigið lækkað aðeins í Köben núna enda svo sem að koma haust hérna og laufin farin að falla. Maður er aðeins farinn að finna að það er kaldara í íbúðinni núna enda ekki ennþá búið að skrúfa frá hitanum. Claus á efri hæðinni lét okkur vita að það verður gert á miðvikudaginn í næstu viku.

Jæja, ég þarf að fara að sinna gestgjafastörfum;)

þriðjudagur, september 23, 2003

Nú er það svart
Allt rafmagnslaust í borginni og að mér skilst á stórum hluta Danmerkur og Svíþjóðar líka. Rafmagnið fór hérna í íbúðinni á hádegi og hélt ég að það væri bara í húsinu en þegar ég hjólaði í skólann rétt fyrir eitt þá voru öll umferðarljós á leiðinni biluð og skólinn í algjöru myrkri. Kennarinn notaðist við “retro aðferðina” eins og hann kallaði það, þ.e. krít og töflu:). Við gátum hins vegar ekki gert æfingahluta tímans þar sem við þurfum tölvur til þess og þær þurfa víst rafmagn. Þannig að ég hjólaði bara til baka og neyðist til að fara að lesa núna. Ef ég skildi fréttirnar í útvarpinu rétt þá á rafmagn að komast aftur á innan skamms, um fjögurleytið. Það var annars ansi erfitt að hjóla án umferðarljósanna en umferðin gekk ótrúlega vel miðað við erfiðar aðstæður. Maður hefur hins vegar verið að heyra óvenjumikið af sírenuhljóðum hérna núna enda eflaust mikið um árekstra.

Við þurfum kannski bara að notast við kerti í kvöld og vasaljós. En við getum að minnsta kosti eldað á gaseldavélinni....

....

Rafmagnið komið aftur á eftir 5 tíma. Hvað tekur ekki þá við... jú... haglél, takk fyrir!!! Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum, fór út á svalir og fékk að kenna á því. Hlussuhaglél sem stóð í ca. 5 mínútur og svo er komin sól núna. Hélt ég væri bara komin til Íslands.

mánudagur, september 22, 2003

Greyin mín á Íslandi, óttalega er nú eitthvað kalt í veðri hjá ykkur núna. Hér er 20 gráðu hiti og sól.

Núna er ég bara orðin ein í kotinu. Ívar farinn í ferðina og mamma og pabbi farin heim. Frábært að fá þau í heimsókn – Styttist svo bara í að ég komi í heimsókn til Íslands. Kem í brúðkaupið hennar Kristínar og verð frá 10.-15. okt. Þið getið byrjað að skipuleggja dagskrá fyrir mig og heimboð, hahaha. Það er akkúrat frí í skólanum þessa viku (viku 42 – Danir hugsa í vikunúmerum – pínulítið erfitt að venjast því).

Jæja, þarf að nýta tímann á meðan Ívar er í burtu til að vera dugleg að læra. Svo kemur Arna vinkona í heimsókn á miðvikudaginn og verður fram á sunnudag.

fimmtudagur, september 18, 2003

Fórum til múttu og pabba á hótelið þeirra áðan og það var frábært að hitta þau. Þau drösluðust með alls konar dót hingað fyrir okkur, alveg hreint yndisleg. Mamma er samt alveg best, hún kom sem sagt með íslenskar kartöflur handa okkur beint úr garðinum í Núpstúni (sumó)!! - sagði bara að þau myndu örugglega aldrei getað klárað þetta allt og ákvað bara að koma með nokkrar handa okkur að smakka. Ekki nóg með það, hún kom líka með hveiti í poka og ger svo ég gæti nú bakað pönnukökur eða lummur.... algjört met, segi nú bara ekki meira! Pabbi kom svo með hljóðnema handa okkur þannig að við getum spjallað við þau á msn.

Við hittum þau svo á morgun og maður kíkir þá kannski í búðir með mömmu;)

By the way... þá var ég að bæta við svona shout out á síðuna þannig að þið getið skrifað í það í staðinn fyrir gestabókina.
Hellú
Við erum aðeins búin að vera löt við bloggið núna enda mikið að gera í skólanum. Var að halda lítinn fyrirlestur í dag og þrátt fyrir stress þá gekk það bara vel. Ég fékk að halda hann á ensku enda ekki alveg komin með dönskuna á hreint :)

Það er annars geggjað veður búið að vera hérna í dag sól og hiti. En við komum beint heim úr skólanum og fórum að þrífa hátt og lágt. Frestuðum því aðeins vegna anna en núna eru mútta og pabbi að koma (eru reyndar lent á Kastrup) þannig að maður verður að sjæna slottið aðeins.

Verðum víst að rjúka núna til að hitta þau
bless í bili

fimmtudagur, september 11, 2003

Jæja, dagurinn byrjaði aldeilis vel hjá minni. Var að teygja úr mér í rúminu og þá barasta gerðist eitthvað í bakinu og hálsinum á mér og ég stífnaði öll upp. Var búin að vera með eitthvað stífelsi í hálsinum. Ég náttúrulega var bara gólandi hérna af sársauka og ákvað að skella mér í sjóðheita sturtu að Ívars ráði. Verkurinn minnkaði nú eitthvað við það en í staðinn þá fékk ég bara þessa þvílíku yfirliðstilfinningu og þurfti að leggjast hálfrotuð á sturtubotninn. Sturtan hefur kannski verið ponsu of heit;). Ég er sem sagt búin að vera hálflömuð í dag. Fór samt í skólann og Ívar var svo góður að halda á töskunni fyrir mig allan tímann. Hefði aldrei getað þetta annars. Núna þarf ég sem sagt að snúa öllum líkamanum ef ég ætla að líta til hliðar. Það er nú ekkert eðlilegt hvað ég er mikill hrakfallabálkur stundum... fer nú bara að slá Valdísi vinkonu við;) Rétt nýbúin að jafna mig á rifnum lærvöðva og þá kemur þetta.... Jæja, það sem drepur mann ekki hlýtur að styrkja mann, er það ekki?

Skólinn er aðeins skárri núna og það er farið að ganga betur að hlusta á kennarana. Reyndar misskildi ég einn kennarann aðeins í dag. Samþykkti óvart að vera fyrst til að halda fyrirlestur um efni kafla í kennslubókinni... jibbí... hlakka alveg hreint rosalega til... Það góða við þetta er að þá er ég búin á undan hinum.

Fyrir þá sem vilja vita þá tek ég sennilega 4 kúrsa hérna núna: GIS2, GIS i planlægning og formidling, Applikations programmering, Mapping og Monitoring. Býst við að þeir einu sem hafi áhuga á þessum upplýsingum séu landfræðingavinirnir... Þið hin getið bara hlaupið yfir þessar upplýsingar.

Annars gott veður í dag og við skelltum okkur í Rósenborgarhallargarðinn í hádeginu og nutum veðurblíðunnar.

Ráðlegging til þeirra sem ætla til Köben: Passið ykkur á hundaskítnum!! Þeir sem hafa verið í Frakklandi kippa sér ekki upp við þetta. Þegar við komum heim í dag þá hafið einn gert sér lítið fyrir og létt á sér hérna beint fyrir utan dyrnar. Af aðstæðum að dæma þá var hundurinn stór!!

miðvikudagur, september 10, 2003

Bloggið hjá okkur getur stundum verið pínu skrýtið. Það vantar stundum neðsta hlutann á það en yfirleitt gengur bara að stækka eða minnka gluggann. Ég er ekki alveg orðin nógu sjóuð í html málinu ennþá til að skilja af hverju þetta gerist.... ef einhver er með ábendingar þá eru þær vel þegnar. Þarf að verða mér út um "html for dummies" bók:)

Hér er annars búið að rigna non stop í allan dag og ég ákvað að fara bara í skólann með strætó, nennti ekki alveg að klæða mig í regngallann og setja rúðuþurrkur á gleraugun;)... Hefði kannski betur bara hjólað þar sem strætóinn hriplak!!

Góðar fréttir: Erum komin með miða á Stuðmenn á laugardaginn... Selma náði að redda miðum og fær hún stóran plús í kladdann hjá okkur fyrir það! Verður gaman að komast aðeins út á lífið í Köben. Flytjum fréttir af þessu á sunnudaginn.

þriðjudagur, september 09, 2003

Jæja, þá er maður loksins farinn að hjóla hérna eins og almennilegur Dani. Drifum í því að pumpa í dekkin í morgun og fórum svo á hádegi í skólann og vorum ca. 10-15 mín á leiðinni. Ótrúlega þægilegur ferðamáti en samt soldið skerí. Sum ykkar þekkja örugglega til hjólamenningarinnar hér. Maður þarf sko að vera með umferðarreglurnar á hreinu, rétta út höndina ef maður beygir og setja hann upp í loft ef maður stoppar. Annars lendir maður bara í því að vera öskraður niður af reiðum Dönum. Hérna eru sem sagt hjólabrautir til hliðar við akreinarnar og maður hjólar samsíða bílunum. Ótrúlegt en satt þá sér maður nánast engan með hjólahjálm, ólíkt því sem er heima á Íslandi. Kannski af því að fólk á bíl tekur mun meira tillit til hjólanna hér en heima. Það á örugglega eftir að taka smá tíma að komast inn í hjólakerfið hérna en það borgar sig ... maður spara þá einhvern pening og heldur sér kannski í smá formi.

Í gær fórum við í smá túristaleik og fórum upp í Rundetårn (við Købmagergade) sem var reistur árið 1642 og var notaður til stjörnuskoðunar. Þarna fékk maður loksins útsýni yfir borgina og gat aðeins áttað sig betur.

Við erum byrjuð á fullu í skólanum og tilheyrandi lestur, ljósritanir og ferðir á bókasafnið þar með. Bókasafnið í skólanum er reyndar sér kapítuli út af fyrir sig! Almennar bókasafnsreglur hafa ekki náð þangað. Ef maður ætlar að finna bók þá þarf maður að slá henni upp í tölvugagnagrunni bókasafnsins, fá þar uppgefið númer (t.d. jbb) og fara svo í rauða uppflettibók eða gula eftir því hvers kyns bókin er (getur verið erfitt að giska á það) og fá þar útskýringu á jbb ef maður vill hana. Síðan fer maður eftir korti þar sem maður sér hvernig bókasafninu er skipt niður eftir bókum, tímaritum eða löndum/heimsálfum. Þá loksins er maður kominn með staðinn sem þetta er á, kemst loksins að hillunum og þá er takk fyrir engin stafrófsröð!- alveg til að gera skipulagsfrík eins og mig geðveika! Ég held þessu fólki veitti ekkert af því að taka einn kúrs eða tvo í bókasafnsfræðum. Bókasafnsvörðurinn er reyndar ágætur og ég býst við að komast í gegnum þetta með hans hjálp. Grunar reyndar að skipulagsleysið hafi eitthvað að gera með sjónleysi hans. Maðurinn er óhugnalega fjarsýnn og gleraugun þykk eftir því! Fyndin týpa.

Ég þarf víst að hætta núna. Ætlum að reyna að ná í miða á Stuðmenn á billetnet.dk. Á slaginu 12 fara víst inn þeir miðar sem eru ósóttir og þá eigum við kannski möguleika á að komast.

Góða nótt;)

sunnudagur, september 07, 2003

Eins og Svana minntist á horfðum við á landsleikinn á þýskri stöð sem ég náði að finna á sjónvarpinu í gær. Þvílík hamingjustund þegar ég fann þessa stöð!! Þegar leið að leiknum tengdi ég hátalara við tölvuna og ákvað að hlusta á lýsinguna á Rás 2 í gegnum netið. Eftir mikið basl fór nú svo að Bjarni Fel var alltaf langt á eftir. Kannski bara af því að hann er orðinn svo gamall? Íslenska landsliðið stóð sig hins vegar vel að mínu mati og baráttan var góð. Fengum hættulegri færi en Þjóðverjarnir og vorum óheppnir að fá ekki þrjú stig. Maður var ansi hræddur um að þýska seiglan kæmi sínum mönnum til bjargar en allt kom fyrir ekki og við höldum efsta sætinu. Nú er bara að vona að úrslitin í leikjunum sem eftir eru verði okkur hliðholl.

Höfum annars haft það rólegt yfir helgina. Ég er aðeins að jafna mig á kvefinu og svei mér þá ef það Svana er ekki bara betri líka. Undanfarna daga höfum við skipst á að hósta, hrækja, snýta og sjúga upp í nefið... alveg sérlega geðsleg saman.

Svana hafði á orði að maður væri óttalega pjattrófa ef maður byggi á Íslandi. Þar er allt svo hreint og fínt; snyrtilegar götur, hreint og gott vatn og engin skordýr um allt. Síðan er það Íslandi og Íslendingum til hróss að þar er mun minna reykt á almannafæri. Mín tilfinning er líka sú að reykingar séu algengari hér í Danaveldi en á Íslandi. Skyldu þjóðhöfðingjarnir hafa þessi áhrif? Hvar er Þorgrímur Þráinsson þeirra Dana? Sem dæmi um reykingavenjur Dana þá sér maður prófessorana í skólanum reykja inni á skrifstofum og svo á má einnig reykja í sérstöku almenningsrými inni í skólanum. Því byrjar maður hvern morgun á því þegar maður kemur í skólann að ganga í gegnum reykingalyktina. Ekki mjög gaman!!

Annað sem mér finnst sárlega vanta hér í Köben er útsýni. Maður sér bókstaflega ekki neitt nema maður horfi beint upp í loftið. Hér eru hús og ekkert nema hús í allar áttir, hvert sem litið er. Mér fannst nú erfitt þegar ég flutti af Skaganum í borgina að hafa ekki útsýni yfir sjóinn og fjöllin úr glugganum hjá mér. En þetta er nú enn verra. Í Reykjavíkinni gat maður þó gengið spölkorn til að fá útsýni. En hér í Köben.... úff! Ekkert útsýni nema beint upp, ekki einu sinni fjöll til að gleðja augað. Borgin er að vísu falleg, mikið af fallegum görðum og gömlum byggingum og gaman að ganga hér um og skoða. En Ísland verður alltaf best!!!

Ívar Örn

laugardagur, september 06, 2003

Vorum að enda við að horfa á landsleikinn við Þýskaland á þýskri stöð sem við náum hérna. Æsispennandi alveg. Endaði auðvitað með jafntefli eins og flestir fótboltaleikir sem ég hef horft á.... Þá er nú skemmtilegra að horfa á körfuboltann að mínu mati. Gerði þetta nú meira Ívari til samlætis :-) Þetta varð hins vegar fyrst skemmtilegt eftir leikinn þegar við horfðum á viðtal við þýska þjálfarann. Skildum reyndar ekki mikið í þýskunni en hann missti sig alveg undir gagnrýni blaðamannsins og varð alveg brjál í beinni. Greinilega mikil pressa á greyið kallinum. Jæja, nóg um bolta í bili.

Vorum í skólanum í gær til fjögur og fórum síðan heim til að hringja í Ikea og spyrja hvort botninn í rúmið væri ekki kominn. Beið ca. hálftíma á IKEA “hotline” með gargandi auglýsingar á dönsku í eyrað á mér á meðan. Kom svo í ljós að botninn var til og við flýttum okkur auðvitað með strætó þangað og keyptum hann ásamt skáp, borðlampa, 2 ljósakrónum og smádóti. Ívar duglegi náði svo að setja rúmið saman og skápinn um kvöldið. Himneskt að sofa í alvörurúmi aftur.

Annars líður okkur bara vel fyrir utan kvefpest sem Ívar tók með sér að heiman. Vona að öllum líði vel heima.

fimmtudagur, september 04, 2003

Bleesssuð öllsömul!
Loksins komið gott veður í Köben og þá er ekki hægt að hanga inni og læra. Ætlaði að byrja í dag en ákvað að fresta því aðeins. Erfitt að koma sér í lærdómsgírinn svona fyrst á haustin.

Í morgun fórum við og sóttum kennitöluna hans Ívars og nú getur hann farið að fá sér símakort hjá telmore. Þvínæst lá leiðin í skólann og ég fór í einn tíma og leist vel á hann (fyrir þá sem þekkja til þá er þetta GIS kúrs). Eftir skóla röltum við í bæinn og skoðuðum okkur um. Stóðum örugglega í klukkutíma og hlustuðum á reggie-bandið Emergency sem var að spila á Strikinu og eftir að þeir hættu spjölluðum við eina danska meðliminn í bandinu (hinir frá Kenýa og öðrum Afríkuríkjum). Hann sagði okkur meðal annars að hann hefði verið á Íslandi í nokkra mánuði að vinna á Hrafnistu í Hafnarfirði (með dönskum hreim).

Mikið meira afrekuðum við nú ekki í dag. Áttum ekkert í ísskápnum þegar við komum heim og fórum þess vegna á pizzastað sem er hérna í næsta húsi og ákváðum að prófa pizzu þar. Hún reyndist framar vonum og sit ég því hérna södd og sæl. Þessi staður verður án efa heimsóttur oftar.... þó ekki of oft – maður má nú ekki fara að breytast í eitthvað biff hérna;)

miðvikudagur, september 03, 2003

Halló aftur, Ívar hér.
Ákvað að setjast aðeins við tölvuna til að blogga. Tölvan er alveg við gluggann þannig að ég heyri vel í umferðinni á meðan, gott að vita að maður er ekki einn í heiminum, líkt og ég hélt oft og tíðum þær vikur sem ég var í Kringilsárrana við Brúarjökul (norðanverðum Vatnajökli...fyrir þá sem það vilja vita). En utan frá berst líka hávaði frá flugeldum sem verið er að sprengja einhvers staðar í nágrenninu. Ekki veit ég af hverju verið er að sprengja flugelda núna en það hefur gengið á með sprengingum síðustu kvöld, svo maður noti nú veðurlegt orðalag. En þær voru þó með mesta móti síðasta sunnudag enda mikið þrumuveður með blossum og eldglæringum á himninum.

Ég fór í fyrsta tímann í skólanum í gær. Auðvitað allt á dönsku og ég skildi, á að giska, um 40-50% af því sem fram fór. Kennarinn vissi ekki fyrr en eftir tímann að ég væri ekki danskur svo hann var ekkert að spá í hvort ég skildi það sem hann sagði. Bauð mér eftir á að hafa kúrsinn á ensku en ég sagði pent “nei takk” við annars fallegu boði, sagðist hvort eð er þurfa að læra dönskuna. Setti um leið netta pressu á sjálfan mig og nú vona ég bara að danskan komi hægt og rólega. Auðvitað fékk ég smá sjokk þegar ég áttaði mig á að ég ætti jafnvel eftir að sitja heilu og hálfu tímana án þess að skilja, allavega fyrst um sinn. .....”púff, ég skil ekki neitt, hvernig á ég að geta þetta” og fleiri hugsanir í þeim dúr glumdu í kollinum á manni. En það þýðir ekkert annað en að bíta á jaxlinn (eða þá sem eftir eru) og horfa björtum augum fram á veginn. Maður hugsar bara að maður hljóti að geta þetta eins og hinir:-)

Röltum eftir skóla yfir á Österbrogade í leit að öðrum rúmfatalager í von um að finna þvottagrind. En slík tól eru hreinlega illfáanleg hér í DK, Danir leggja víst bara viskustykki á borðið þegar þeir vaska upp. Þetta var þó heilmikill göngutúr hjá okkur og við gengum m.a. fram hjá Parken (þar sem Íslendingar töpuðu 14-2 fyrir Dönum 1967? eins og frægt er orðið). Ég veit þá núna hvert ég á að fara þegar ég fer á völlinn til að sjá FC Köbenhavn etja kappi við andstæðinga sína.

Sváfum á nýju dýnunni okkar (sem á að vera í nýja rúminu sem enn hefur ekki verið sett saman vegna botnleysis) og það var hreint unaðslegt. Sváfum bæði eins og steinn (steinar...) til kl. níu í morgun. Förum líklega á næsta föstudag í Ikea til að ná í restina af rúminu.

Fórum í Tívolíið í dag til að freista þess að fá miða á Stuðmannatónleikana sem verða þar 13. sept. næstkomandi. Uppselt!! Þvílík vonbrigði! Auglýsi hér með eftir 1-2 miðum á þessa tónleika. Ef einhver veit um einhvern sem ætlaði að fara en er hættur við þá hafði samband.

Annars er þetta allt að koma hjá okkur hérna í íbúðinni, erum kominn langleiðina í að koma okkur og draslinu fyrir. Erum að kynnast Köben sífellt betur og höfum gengið mjög mikið þessa fyrstu daga. En nú förum við að hjóla, á bara eftir að pumpa í dekkin.
Jæja, best að fara að hætta þessu blaðri. Hafið það gott á Fróni sem og annars staðar.
Ívar Örn

Ps. Ef glugginn er eitthvað skrýtinn þegar þið opnið þessa bloggsíðu okkar þá ætti það að lagast með því að minnka hann og stækka svo aftur. Tæknilegir örðugleikar.
Pp.s. Erum komin með heimasíma sem þið getið hringt í ef þið viljið: (00 45) 39294859. Erum líka með tölvupóst: ivarbe@mi.is og svana78@mi.is. Gaman væri að fá skeyti.

mánudagur, september 01, 2003

Halló kæru ættingjar, vinir og vandamenn.
Ég er svo þreyttur núna að ég ætla ekki einu sinni að reyna að vera skemmtilegur. Vildi þó bara leggja mitt af mörkum á blogginu okkar nýja sem Svanhildur hefur sett svo skemmtilega af stað og séð alfarið um hingað til. Það er búið að vera ansi mikið að gera síðan ég kom. Við höfum þurft að fara hingað og þangað til að útrétta, matarbúðir, Ikea, JYSK (Rúmfatalagerinn), danska skráningarstofan o.s.frv. Þetta kemur allt hægt og sígandi hjá okkur, Róm var jú ekki byggð á einum degi, eða tveimur! Fórum í Ikea í annað skiptið í dag. Síðast gekk ekki sérlega vel og við komum heim með tvær gardínur. Gekk betur í dag. Náðum að kaupa tvær gardínur í viðbót, grind til hengja þvottinn til þerris, mottu, snaga, sæng fyrir mig, spegil svo við getum séð hvað við lítum vel út, skærgræna óhreinatauskörfu og hvíta fatahirslu, og síðast en ekki síst - 90% af rúmi!! Í síðustu ferð gátum við ekki keypt rúm því það var ekki til. Núna var það til... að mestu leyti. Ákváðum að taka ekki annan séns og keyptum það sem til var, þ.e. allt nema botninn. Getum því ekki sett rúmið okkar nýja saman og verðum að bíða til lok vikunnar eftir botninum blessaða. En þegar öllu er á botninn hvolft erum við bara sæmilega ánægð með Ikeaferð dagsins.
Fyrsti skóladagurinn var í dag. Engir tímar hjá mér í dag, byrja á morgun en ég skellti mér bara með Svanhildi í GIS-kúrs í morgun. Hún skildi miklu meira en ég, ég var hálfgrænn í dönskunni. Hún fór svo í æfingatíma í sama kúrsi eftir hádegi og leist ágætlega á þennan kúrs eftir fyrsta daginn. Ég ráfaði um götur borgarinnar á meðan og skráði mig meðal annars inn í danska kerfið og bíð nú eftir að danskri kennitölu verði stungið inn um bréfalúguna.
Þetta er orðið gott í bili, skrifa meira seinna þegar um hægist.
Hafið það öll gott.
Ívar Örn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?