<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Nú rignir eins og hellt væri úr fötu hérna og það var vægast sagt ekki skemmtilegt að hjóla heim í dag! Ég sá varla nokkurn skapaðan hlut þar sem ég var ekki með rúðuþurrkur á gleraugunum og þurfti ítrekað að stoppa til að þurrka þau! Algjör nörri! Fyrir utan gleraugnavesenið þá var þetta samt bara hressandi og fínasta hreyfing í þessu hjóleríi. Ég er reyndar að verða ansi pirruð á því hvað það tekur langan tíma að koma sér af stað, maður þarf nú í fyrsta lagi að galla sig upp í regnföt, svo þarf maður að setja blessuð ljósin á að aftan og framan þar sem maður má nú ekki fyrir nokkra muni skilja þau eftir á þar sem Danir eru svo stelsjúkir. Auðvitað þarf maður líka að læsa hjólinu og svo setja poka yfir sætið svo það verði nú ekki rennandi blautt. Ég sver það, þessi prócess tekur örugglega korter! Svo er Ívar alltaf búinn að þessu á undan mér, hvernig sem ég reyni að flýta mér, ohhhh.

Fór út á pósthús þegar ég kom heim og skildi eftir mig dágóðann poll á gólfinu þar en tók hins vegar með mér pakka hingað heim. Mamma sendi mér Moggann, ullarsokka, íslenskt súkkulaði og síðast en ekki síst bréf. Það er svo gaman að fá handskrifað bréf á þessum tölvuvæddu tímum. Takk mamma mín:)

Á morgun fáum við Ívar svo systur hans og Hemma manninn hennar í heimsókn þannig að við ætlum nú að reyna að taka aðeins til áður og kannski versla smá líka þar sem ísskápurinn er tómur.

Hafið það gott:)


fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Jæja gott fólk, við hér á Haraldsgade erum sæl og södd eftir sannkallaða jólamáltíð. Við elduðum nefnilega ekta hamborgarhrygg, brúnaðar kartöflur, sósu og allar græjur. Já, já maður getur þetta:) Jólamaturinn er nú reyndar alltaf bestur hjá mömmu en maður reynir sitt besta. Þessi matur sló nánast jólakalkúninum forðum daga í Aix næstum við;) Það var svo sem ekkert sérstakt tilefni til þessara litlu jóla, keyptum hrygginn bara á tilboði í Nettó um daginn.

Þessa dagana er annars allt á fullu í skólanum, verkefnaskil um mánaðamótin í 3 kúrsum og ég er að verða algjörlega stjörf af tölvuvinnu. Ég hvíldi mig reyndar aðeins á lærdómnum í morgun og skellti mér í stöðupróf í dönsku í Studieskolen þar sem boðið er upp á ókeypis tungumálakennslu fyrir útlendinga. Þar þurfti ég að skrifa stutta ritgerð og spjalla við kennara á dönsku. Hún ákvað barasta að skella mér á hæsta level í dönskukennslunni – held hún hafi verið orðin eitthvað svöng greyið og sígarettusjúk– ég var nefnilega síðust inn í viðtalið og klukkan farin að nálgast tólf. Ég kemst líklega ekki á námskeið fyrr en í janúar þar sem allt er fullbókað núna en hlakka bara heilmikið til – annað en forðum daga í dönskukennslunni – þá var nú líka skylda að hata dönskuna!

Það voru nokkrir aðrir að taka þetta próf og þar á meðal stelpa frá New York sem ég spjallaði við þennan klukkutíma sem við biðum eftir að komast í viðtalið. Hún var alveg frábær týpa og það kom bara í ljós að við áttum heilmikið sameiginlegt, meðal annars frönskuáhuga. Hún og vinir hennar (bandarískir, danskir og franskir) hittast víst reglulega og halda “frönskukvöld” – borða franskan mat og skylda að tala frönsku (pínu halló kannski) en hún bauð mér að koma og vera með þeim næst. Ég greip hana bara á orðinu og bíð núna bara eftir boði:) Það ætti nú að verða frekar fyndið að hitta fólk sem ég þekki ekkert og byrja að babla við það á frönsku. Ég er reyndar orðin alltof ryðguð í frönskunni þannig að það væri ágætt að rifja smá upp.

Best að drífa sig í háttinn núna...



laugardagur, nóvember 08, 2003

Nóg að gera í gær. Fórum á kommúnuskrifstofuna til að fá umsókn um húsaleigubætur. Við ætlum að reyna að sækja um þær, munar áreiðanlega um peninginn, þar sem leigan er nokkuð há. Svo hjóluðum við í Fitness DK til að fá upplýsingar um hvað það kostar að æfa hjá þeim, þurfum nefnilega að fara að koma okkur í betra form. Við erum að spá í að prófa einn mánuð hjá þeim þar sem það er eitthvað prufutilboð í gangi núna á 199 kr danskar. Eftir það kostar þetta reyndar alveg 300 danskar á mánuði ef maður bindur sig til 6 mánaða. Stöðin er ótrúlega flott og nokkuð mikið úrval af alls konar tímum og flottur tækjasalur líka. Svo er ekki verra hvað þetta er nálægt okkur, við erum bara 5 mínútur að hjóla þangað.

Eftir heimsóknina í Fitness stöðina lá leið okkar niður í bæ í tungumálamiðstöð þar sem útlendingar eiga að geta fengið ókeypis dönskukennslu. En við komum að lokuðum dyrum þar. Danir taka helgarnar yfirleitt mjög snemma og skrifstofur loka oft á hádegi. Reynum bara eftir helgi aftur. Held að það geti verið sniðugt að fara í smá dönskukennslu, sakar allavega ekki þar sem þetta er ókeypis:)

Svo skruppum við líka í banka og stofnuðum reikning og fáum vonandi debetkortið (Dankortið) eftir ca. 2 vikur. Það var ekkert mál að stofna reikning, öfugt við það sem okkur hafði verið sagt. Við höfum hingað til verið að taka út á íslenska debetkortið í hraðbönkum og þá er alltaf lagt eitthvað fast gjald ofan á og það er nú ekki nógu sniðugt þegar maður er að reyna að spara.

Jæja, best að reyna að læra eitthvað. Fáum annars Selmu og Siggu Birnu í mat í kvöld, alltaf gaman að hitta Íslendinga:)

p.s. Valdís! Ég er búin að vera að reyna að ná í þig! Hvar ertu eiginlega?

sunnudagur, nóvember 02, 2003

SPLUNKUNÝJAR myndir komnar!!!! Mínar aðeins seinar að setja inn myndir frá Íslandsheimsókninni. Þetta batnar nú vonandi þegar við fáum okkur stafræna vél, hvenær sem það verður. Það tekur mig stundum soldið langan tíma að ákveða svona lagað, þarf fyrst að lesa sem flesta dóma og vega svo og meta. Ég býst nú við að ég ætti að vera orðin ákveðin eftir svona ca. hálft til eitt ár. - Greyið Ívar!

Ef ykkur vantar góða vefsíðu með dómum um stafrænar vélar og ýmislegt annað þá er hún hér.
Jæja, góðan daginn!
Var að kíkja á það sem Ívar skrifaði og ákvað að skoða gestabókina í leiðinni. Svo virðist sem við höfum fengið óvænta heimsókn þangað. Tiffany vinkona sendi okkur afar hjartnæma kveðju:) Maður er greinilega hvernig óhultur fyrir svona rugli. Þarf að finna út hvort ekki sé hægt að þurrka svona "óæskilegar" athugasemdir út. Þið hafið bara gaman af þangað til:)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?