<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Herregud hvað það er kalt núna, sennilega -4° en mjög fallegt veður samt. Vorum að koma úr skólanum þar sem Ívar dró efni til að halda fyrirlestur um á morgun. Hann er bara bjartsýnn á þetta. Fer reyndar í tvö próf á morgun en efnin skarast mikið þannig að þetta er ok.

Í gær fengum við afar skemmtilegt bréf um að við værum loksins búin að fá íbúð á Öresundskollegie. Kemur alveg á besta tíma þar sem við erum búin að skrifa undir framleigusamning á sama kollegie til ágústloka og getum því ekki tekið við þessu. Hefði verið skemmtilegra að komast alveg í sína eigin íbúð og vera ekki með drasl frá öðrum en við verðum bara að lifa með þessu.

Jæja, áfram heldur vinnuleitin.....

mánudagur, janúar 19, 2004

Var að fá útkomu úr eina prófinu sem ég tók og ákvað bara að monta mig smá! Fékk 11. Danska kerfið aðeins öðruvísi í einkunnagjöfinni, 11 er hæst en ef maður hefur miðlað einhverjum fróðleik utan lesefnisins þá fær maður 13, en 12 er ekki til. Stórfurðulegt kerfi alveg en ágætt að fá smá upplyftingu svona í skammdeginu!!

sunnudagur, janúar 18, 2004

Sjóðheitar fréttir alveg! Norah Jones verður með tónleika í Köben 22. júní. Veit allavega af einni vinkonu sem væri til í að koma;).

laugardagur, janúar 17, 2004

Jæja, toeflið yfirstaðið og gekk bara vel, lenti að vísu í smá tímahraki undir lokin en þetta reddaðist. Ansi erfitt að koma sér út í morgun kl. 8 í myrkur og rigningu og hjóla í 30 mín. Þar að auki var partý í nótt í húsinu við hliðina á okkur þannig að svefninn var pínu slitróttur. Prófið tók 3 tíma og ég hjólaði svo glorhungruð heim. Ívar tók sér hlé frá lestrinum í hádeginu og horfði með mér á endursýningu á Kroniken sem er ný dönsk dramasería. Danirnir eru alveg að tapa sér yfir þessum nýja þætti og áhorfið sprengir öll met. Ætli þetta komi ekki til Íslands eftir ár ca. Þetta er svona í stíl við Matador þættina ef einhver man eftir þeim. Mjög góðir leikarar og skýr danska og auðvelt að skilja. Lífið væri mun auðveldara ef fólk talaði eins vandaða dönsku núna og á þessum tíma (5.áratugnum).

Nýtt fólk flutt inn á neðri hæðina. Við Ívar vorum mjög ánægð að losna við þau sem voru þarna enda reyktu þau eins og strompar og þar sem húsið er ekkert alltof vel einangrað þá var alltaf reykingalykt hjá okkur og af fötunum okkar. Héldum að við værum nú endanlega laus við lyktina en þá kom bara í ljós að nýja fólkið reykir auðvitað alveg jafnmikið. Nýju nágrannarnir virðast hins vegar ekki vera sömu vekjaraklukkubrjálæðingarnir og þeir fyrri sem vöktu okkur með 3 mismunandi klukkum sem hringdu u.þ.b. á hverjum degi í klukkutíma frá kl. 6. Hlýtur að vera betri einangrun á Öresundskollegíinu!

Í dag eru það svo bara fleiri atvinnuumsóknir og jafnvel skellir maður sér í gymmið. Ívar situr voða duglegur við lesturinn og biður að heilsa.

föstudagur, janúar 16, 2004

Búin að vera atvinnulaus í viku og það er bara hundleiðinlegt, samt alveg nóg að gera. Verð kannski í rauninni ekki atvinnulaus fyrr en 1.feb. þegar greiðslur berast ekki lengur frá elskunum hjá LÍN. Ég er hins vegar búin að tékka á eins konar atvinnuleysisbótum frá kommúnunni og fæ þær frá 1.feb ef ég verð ekki komin með vinnu. Ég verð sko allavega komin með danska kerfið á hreint eftir veruna hér, það er á hreinu. Svo er ég búin að gera danskt cv og er byrjuð að senda umsóknir.

Í dag er ég hins vegar búin að vera að undirbúa mig undir alþjóðlegt enskupróf (TOEFL) sem ég þarf að hafa ef ég fer til Skotlands. Það er haldið í Frederiksberg og tekur um hálftíma að hjóla. Þetta undirbúningsefni sem ég hef verið að skoða bendir til þess að þetta próf sé nú bara pís of keik. Einhverjar hlustunar-, málfræði-, les- og skrifæfingar.

Kvöldið verður annars bara rólegt, taco í matinn og svo bara imbinn. Vona að þið eigið góða helgi:)

P.s. Eitt sem mig langar að láta ykkur vita af er Heimskortið og Atlaskortið. Mun ódýrari símtöl til útlanda en í fastlínukerfinu. Hægt að kaupa 1000 króna kort og tala til okkar hérna í Köben í 200 mínútur minnir mig. Fyrir sama verð í fastlínu fást sennilega um 50 mínútur. Atlaskortið er víst betra – pabbi keypti svoleiðis hjá Shell. Spáið í þetta!

mánudagur, janúar 12, 2004

Nokkrar nýjar myndir komnar inn frá jólafríinu hér til hliðar. Erum ekki búin að fara með okkar óstafrænu í framköllun og eigum örugglega ekki eftir að nenna að skanna þær og setja á netið þannig að þessar verða bara að duga. Erum enn að skoða stafrænu málin.

Ívar er núna að undirbúa sig fyrir fyrsta prófið sitt. Hann dró prófefnið í morgun og á að gera fyrirlestur um það á morgun og svara einhverjum spurningum sem kennarar og prófdómari leggja fyrir hann. Hann er pínu stressaður skiljanlega.

Ég er hins vegar að gera danskt CV svo ég geti nú farið að bjóða fram vinnukrafta mína á dönsku:) Fer svo á eftir að undirrita húsaleigusamninginn á Öresundskollegíinu og borga depositum sem er 2 mánaða leiga.

Svo er það bara mánudagsfiskurinn í kvöld, ég fæ víst að setja hann í eitthvað jukk með góðfúslegu leyfi Ívars. Honum finnst það samt sennilega vera helgispjöll að fara svona með fína íslenska ýsu. Maður verður bara að hafa smá tilbreytingu í þessu. Forðinn í frystinum er hins vegar eitthvað að minnka, það er allavega farið að glitta allverulega í þessi tvö saltfiskflök, ekki hætt við að ég fá hroll við tilhugsunina. Kannski er samt hægt að jukka saltfiskinn líka eitthvað út?? - Býr einhver svo vel að eiga góða saltfisksuppskrift... býst reyndar ekki við miklum undirtektum..


laugardagur, janúar 10, 2004

Elsku bestu blogglesarar nær og fjær, gleðilegt ár og takk fyrir allt gamalt og gott.

Loksins hefur maður nýtt bloggár. Ég hef verið upptekin frá því við komum út við að lesa fyrir mitt eina próf og fór í það í gær. Gekk bara ágætlega. Sum ykkar vita að ég hef ákveðið að halda ekki áfram við mastersnámið hérna í Kaupmannahöfn heldur taka mér hlé þetta misserið og reyna að fá vinnu. Ég fann mig ekki alveg nógu vel í þessu hérna í Köben enda var ég nú kannski soldið að elta Ívar hingað og var ekki alveg nógu ákveðin með þessa umhverfisfræði sem ég stefndi á. Svo var ég líka farin að hugsa um aðra sérhæfingu innan landafræðinnar og það er landafræði heilsufars og sjúkdóma og hef verið að skoða eins árs nám við University of St. Andrews á því sviði (Health Geography). Þessi sérgrein innan landafræði fjallar meðal annars um dreifingu sjúkdóma og faraldra (faraldsfræði) og rannsóknir á heilbrigðisþjónustu og mismun hennar milli svæða. Ég ætla hins vegar að vera orðin vel ákveðin og helst komin með mastersverkefni áður en ég held í það nám enda kostar það túskildinginn. Það getur svo auðvitað líka verið að aðrir skólar komi betur til greina. Framhaldið er sem sagt frekar óákveðið en ég stefni á að fara bara ekki héðan frá Köben fyrr en ég er komin með dönskuna í farteskið og þess vegna ætla ég að ráðast í atvinnuleit. Býst nú ekki við að fá vinnu á mínu sviði enda danskan kannski ekki orðin nógu góð ennþá og svo er talsvert atvinnuleysi hér meðal landfræðinga. Dönskukunnáttan stendur hins vegar til bóta enda er ég komin í dönskunám í Studieskolen, eins og Ívar var búinn að segja. Ég er búin að fara í tvo tíma og líst mjög vel á enda hefur mér svo sem aldrei leiðst tungumálanámið. Kennarinn er fínn og nemendurnir líka. Það eru ca. ellefu nemendur frá öllum heimshornum; Kanada, Spáni, Þýskalandi, Costa Ríka, Gíneu, Indlandi og svo einn annar Íslendingur auk mín. Flest hefur þetta fólk dvalið hérna lengi og hefur sótt fleiri námskeið þarna í skólanum. Þessu námskeiði lýkur í lok febrúar og þá get ég farið í framhaldsnámskeið sem lýkur líklega í apríl og svo er manni boðið að ljúka þessu með Dansk prøve 3. Aldrei að vita nema maður reyni bara við það. En þetta eru sem sagt plönin hjá mér, allt frekar óákveðið. Læt ykkur vita ef eitthvað breytist.

P.s. Rosalega gaman að hitta ykkur öll um jólin bæði á Skaganum og í Reykjavík. Takk kærlega fyrir okkur.

Skelli inn einhverjum myndum frá jólunum bráðum...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?