<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, febrúar 29, 2004

Helgin

Fyrsta vinnuvikan að baki og allt hefur gengið áfallalaust fyrir sig. Búin að hitta um það bil 40 ný börn og 20 fullorðna þessa þrjá daga sem ég var að vinna á 3 mismunandi deildum. Ekki alveg viss um að ég sé með öll nöfnin á hreinu ennþá! Það versta við þessa vinnu er að það tekur 30 mín að hjóla þangað. Ég er því í klukkutíma hjólatúr á hverjum degi og gymmið er ekkert sérlega freistandi eftir vinnu þannig að skiptunum þar fækkar ábyggilega eitthvað.

Ég slakaði svo sem ekkert á hjólinu í gær þar sem við hjóluðum niður í bæ í gymmið og svo til baka. Um kvöldið hjóluðum við síðan í gamla Empire-bíóið okkar rétt hjá Haraldsgötunni og til baka. Ekki illa af sér staðið! Fórum á Lost in translation og ég get auðveldlega mælt með henni. Engin hasarmynd en vel útfærð og ágætis tilbreyting frá öllum amerísku vellumyndunum.

Ég stóð mig reyndar vel að öðru leyti í gær. Ákvað að halda aðeins uppá vinnuna með því að kaupa föt;-) Má það nú alveg enda ekkert búin að vera fatasjúk hérna úti. Keypti flottar Diesel buxur og 2 boli.

Við pöntuðum svo flug heim í sumar, nánar tiltekið 28. júlí. Rétt náum Verslunarmannahelginni. Ívar fer svo aftur hingað út 15. sept og ég verð eftir heima. Þið getið þá bara hér með byrjað að plana útilegur og partý með okkur eftir 28.júl......

Þarf víst að snúa mér að skemmtilegri dönskuritgerð núna, jibbí.

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Ívar kominn og vinnan líka:)

Búin að fá Ívar minn aftur og er alsæl með það. Svo kom hann líka með alls konar góðgæti með sér, kleinur, hangiálegg, lakkrís, harðfisk, matarkex ofl ofl:=)

Ég gat víst ekki tekið á móti honum í morgun þar sem ég var kölluð í vinnu. Já, þið heyrðuð rétt, loksins rættist úr þessum málum hjá mér. Fór á barnaheimilið Børnejunglen í vikarstarfið sem ég sagði ykkur frá um daginn. Var svo beðin að koma líka á morgun frá hálfníu til fimm. Var á deild fyrir börn frá 1-3 ára í dag og þau voru voða sæt og yndisleg og leikskólakennararnir líka. Engir meiriháttar tungumálaerfiðleikar og allt gekk bara vel. Fer svo á aðra deild á morgun. Það er svolítið leiðinlegra að vera svona vikar því þá flakkar maður á milli deilda og er bara þar sem mannskapur er minni en venjulega. En ég er allavega sátt að vera loksins komin af stað með vinnuna.

laugardagur, febrúar 21, 2004

Pöddulíf

Jæja, þá er ein af viðbjóðslegri lífsreynslum mínum að verða yfirstaðin. Við höfum verið að eitra fyrir ógeðslegu pöddunum sem við urðum vör við fyrir stuttu. Fórum til umsjónarmannsins hérna á kollegíinu og fengum einhvern pöddubana. Þetta er greinilega algengt vandamál og í sumum blokkunum finnast m.a.s. kakkalakkar. En okkar pöddur eru sem sagt litlar brúnar bjöllur. Við ákváðum að taka hillurnar alveg í gegn og grandskoða allt sem var í þeim, mest af því eitthvað bökunardrasl frá fyrri eigendum sem við þorðum ekki að henda strax. Það kom svo í ljós að upptökin voru einmitt í því ógeði og ég held bara að sú lífsreynsla að finna þær tugum saman ofan í einni körfunni dugi til að koma mér inn á Klepp. Ég er ennþá með gæsahúð og æluna í hálsinum. Við tókum alla hveitipokana og bökunardótið og hentum því og eitruðum í leiðinni eins og vitleysingar. Vona að við höfum ekki eitrað mikið fyrir okkur í leiðinni:-)

Malmöferðin í gær var hins vegar bara hin besta lífsreynsla. Malmö er falleg og snyrtileg og ágætar búðir þar. Keyptum að vísu ekkert nema nýja diskinn með Noruh Jones. Fórum svo að borða um kvöldið á MelloYello og getum alveg mælt með honum. Eitt sem maður tók öðru fremur eftir í Malmö var hvað það voru miklu færri sem reyktu en hérna í Köben. Maður hvorki kafnaði úr reyk á veitingastaðnum né í verslunarmiðstöðunum. Ótrúlegt að það skuli vera svona mikill munur á Svíunum og Dönunum hvað þetta varðar. Fljótt á litið virtust Svíarnir líka almennilegri en Danirnir en það er svo sem lítið að marka í svona stuttri heimsókn.

Jæja, annar hluti pöddubaráttunnar er að hefjast...

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

4 ár!

Já við eigum víst eins konar afmæli í dag. Erum búin að vera saman 4 ár núna og ætlum okkur að þrauka lengur ;-). Ætlum í tilefni af þessu að fara til Malmö á morgun í smá túristaleik. Rölta í búðum og fara kannski út að borða.

Ívar fór í klippingu út á Nörrebro í morgun, til Íslendings sem er að klippa þar, nema hvað. Maður er dáldið tortrygginn á þetta danska og “pakisdanska” hárgreiðslufólk. Ég skellti mér í hjólatúr með honum þangað og þegar við komum var auðvitað Íslendingur í stólnum. Hugsa að maðurinn klippi bara meirihlutann af Íslendingum í Kaupmannahöfn. Ég ætla svo að fara til hans á mánudaginn – lét Ívar vera hálfgert tilraunadýr í dag;-)

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Örbylgjan vígð!

Já við skelltum okkur á einn nettan microovn í gær. Tókum strætó lengst út á Nörrebro í El-Giganten (nokkurs konar Elko) og splæstum í einn Samsung á tilboði. Drösluðumst svo með hann í strætó til baka. Var svo að enda við að skella niður einum poka af úrvals örbylgjupoppi, mmm....... . Haldiði að það sé munaður!

Hér hefur verið rosafínt veður síðustu tvo daga, sól og sæmilega heitt. Liggur bara við að það sé kominn vorhugur í mann enda daginn sífellt að lengja og bráðum getur maður sennilega farið að leggja blessuðu hjólaljósunum.

Jæja, best að skella í svo sem eina vél í þvottahúsinu hérna í gettóinu.

mánudagur, febrúar 09, 2004

Frábær helgi!
Þá er frábær helgi á enda og við tekur hversdagurinn. Sigga og Valdís komu á fimmtudag en ég hitti þær þó ekki fyrr en á föstudaginn eftir viðtalið mitt sem gekk alveg ágætlega. Hins vegar er þetta ekki full vinna og maður er bara kallaður til ef eitthvað vantar af öðru starfsfólki. Leist hins vegar ágætlega á leikskólann og gæti alveg hugsað mér þetta. Kemur allt saman í ljós.

Á föstudaginn var svo þrammað í búðir og var H&M þar efst á blaði undir dyggri leiðsögn eins helsta viðskiptamanns verslunarinnar, nefnum þó engin nöfn:). Stelpurnar stóðu sig ansi vel í innkaupunum og munu eflaust “græða” heilmikið í endurgreiddum vaski á vellinum á eftir. Á föstudagskvöldið var svo pizzuveisla hérna í K407 á Öresund. Á laugardeginum var áfram haldið í verslununum og gott ef það var ekki komið við svo sem 2x í H&M. Á laugardagskvöld var svo partý hjá Steffí og Sverri. Einhverjir skelltu sér á þorrablótsball Íslendinga hér sem haldið var í Kristíaníu í óupphitaðri skemmu. Við ákváðum að halda frekar í hlýjuna á Pan sem er niðri í bæ. Skemmtilegur staður og skrautlegt fólk, segi ekki meira. Jensens Böfhus var svo heimsótt í gærkvöldi og nokkrum steikum stútað þar.

Þetta var svona það sem gerðist yfir helgina í mjög stuttu máli. Lengri útgáfan fer nú ekkert á bloggið held ég:)

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Reykingalykt!
Við höfum algjörlega verið ofsótt af reykingalykt frá því að við komum hingað út. Héldum að við myndum sleppa við þetta þegar við værum flutt á kollegíið en allt kom fyrir ekki. Parið sem var hér á undan okkur reykti nefnilega og þau þurftu að skilja hluta af draslinu sínu eftir hérna og það er talsverður fnykur af því. Erum búin að reyna allt; lofta út, setja edik á víð og dreif um íbúðina og síðasta hálmstráið var að kaupa eitthvað voða sniðugt apparat sem stungið er í innstungu og á að fjarlægja lyktina. Prófuðum það áðan og ég get vægast sagt ekki mælt með þessu ógeði. Lyktin yfirgnæfði að vísu reykingalyktina en var um leið helmingi verri. Þetta var eins og allra versti og sterkasti rakspíri. Tókum þetta strax úr sambandi en við allt baxið þá fengum við efnið á hendurnar á okkur og öngum nú af viðbjóðslegum rakspíra! Gaman að því.

Skemmtilega ísskápslyktin er enn til staðar. Töluðum við inspektorinn hérna og hann sagðist bara ekki geta reddað nýjum ísskáp þar sem þessi væri splunkunýr en benti okkur á að þrífa með einhverju Rodolon efni og hefst nú leitin að því. Ef það virkar ekki þá þurfa leigjendur íbúðarinnar (þau sem framleigja okkur) bara að gjöra svo vel að punga út fyrir nýjum ísskáp. Yeah right!

Sökum flutninga og almenns vesens síðustu vikuna hef ég ekki mikið gert í atvinnumálunum en er byrjuð aftur að senda út umsóknir. Fékk að vísu t-póst áðan frá einum leikskólanum og ég boðuð í viðtal. Þetta er að vísu bara vikar-vinna, sem þýðir að þetta er ekki fast, heldur er maður kallaður til þegar fólk er veikt eða er í fríum, en það gerist víst oft hér í borg. Ég tékka amk á þessu. Er til vonar og vara búin að tryggja mig þennan mánuðinn með atvinnuleysisbótum. Mjög fróð um danska systemið eftir að hafa gengið í gegnum allt það umsóknarferli.

Það er annars nýtt af honum kærasta mínum að frétta að hann ætlar að stinga mig af og fara til Svalbarða í mars og vera 1 mánuð og taka einn kúrs. Kúrsaúrvalið hérna var eitthvað lélegt og hann ákvað að prófa að sækja um Svalbarða þó að það væri biðlisti inn í þennan kúrs. Fékk að vita það í síðustu viku að hann kæmist inn. Get nú ekki sagt að ég sé yfir mig kát en maður lætur sig hafa það. Er að vinna í því að fá múttu í heimsókn:)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?