<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, mars 28, 2004

Heimsóknir búnar í bili

Já, mamma fór heim aftur í dag, því miður. Alltaf gott að fá mömmu sína:) Held bara að hún hafi skemmt sér ágætlega hérna hjá örverpinu sínu;).

Svo er sumarið víst komið, amk var klukkunni flýtt í nótt og þar með tapar maður einum tíma, - ekki eins og tíminn líði ekki nógu hratt fyrir. Verð að segja að mér finnst þetta óttalega hallærislegt kerfi eitthvað, þá finnst mér nú bara sniðugra að vera alltaf á sumartímanum eins og á Íslandi og sleppa þessu bölvaða hringli. Ef einhvern langar að lesa fróðleik um sumartímann þá er umfjöllun um hann á heimasíðu Almanaksins – aðeins að “plögga” fyrir pabba sinn;-).

Var annars að hlusta á júróvisjón lagið áðan og það er bara skárra en ég bjóst við, m.v. hver söngvarinn er. Hann hefur bara náð að takmarka óþolandi svipbrigðin nokkuð vel og kemur ágætlega út í myndbandinu. Yfirleitt get ég ekki horft á hann án þess að reita á mér hárið. Lagið er hins vegar aðeins of rólegt og væmið til að ná góðum árangri held ég, en venst ágætlega við fleiri hlustanir. Segið mér endilega hvað ykkur finnst, þarf að fá smá líf í þessi comment hérna!

miðvikudagur, mars 24, 2004

Mamma eskan í heimsókn

Mamma kom í heimsókn á föstudaginn og verður fram á næsta sunnudag. Hún kom auðvitað með kræsingar með sér, flatkökur, hangikjöt, skyr og síðast en ekki síst páskaegg!!!:) Ætli ég leyfi Ívari ekki að fá smá bita með mér.

Ég tók mér frí í vinnunni þessa vikuna og er búin að njóta frísins með múttu. Við erum auðvitað búnar að vera aðeins í búðunum og kíktum líka í Jónshús á sunnudaginn. Fórum svo í Fields í dag en ég hélt ekki mjög lengi út þar sem ég er að kafna úr kvefi núna, gaman að því:) Ætlum svo að reyna að skreppa til Malmö á föstudaginn ef ég verð orðin sæmilega góð.

Jæja, best að bregða sér svo sem eina snýtuferð á klósettið;-)

miðvikudagur, mars 17, 2004

Gleði gleði!

Er loksins búin að fá stafrænu myndavélina. Eftir miklar verðkannanir og samanburð á myndavélum þá hafði Olympus 5060 yfirburði. Hjólaði í búðina eftir vinnu og svo heim á leið með stórt bros á vör:) Get svo ekki beðið eftir að prófa gripinn, þarf bara að hlaða fyrst.

Hér er búin að vera þessi líka rjómablíða í allan dag, 15 stiga hiti og sól/mistur. Vorum úti með krakkana nánast í allan dag.

Jæja, ætla að drífa mig aðeins út í góða veðrið á meðan vélin er að hlaðast.

þriðjudagur, mars 16, 2004

Vor í lofti

Frábært veður í dag, 12 stiga hiti og sól öðru hvoru. Ég misreiknaði mig aðeins þegar ég fór í vinnuna í morgun og klæddi mig alltof vel. Fórum með krakkana í picnic í Parken.

Vona bara að veðrið haldist svona gott þangað til mútta kemur á föstudaginn. Á morgun á hitinn víst að fara upp í 15 gráðurnar!!

Jæja, ætla að drífa mig niður í bæ í góða veðrið áður en ég fer í dönskutímann. Spurning hvað hitastigið er hjá Ívari núna, naha:)!!!

Adios

mánudagur, mars 15, 2004

Heimsókn

Hákon bróðir kom í heimsókn um helgina og það var frábært að fá hann. Ég náði mér reyndar í einhverja smá pest þannig að ég var með hálsbólgu og slappleika alla helgina og fór ekki í vinnu í dag. Ég fór reyndar aðeins í bæinn með Hákoni, kíktum á kaffihús og í HogM að kaupa barnaföt, nema hvað! Þau urðu reyndar öll að vera hvít þar sem kynið er ekki á hreinu. Ég fæ bara útrás í litunum áður en ég kem heim í júlí :) Verst reyndar að ég verð ekki viðstödd þegar frænka/frændi lítur dagsins ljós í júní. Ég er reyndar nokkuð viss um að þetta verður frænka!

Við fórum líka út að borða á laugardagskvöldið og skruppum svo aðeins í nýju verslunarmiðstöðina Fields sem var verið að opna fyrir viku. Þar var algjörlega stappað þannig að við hörfuðum fljótlega út aftur. Ætli ég kíki ekki þangað aftur þegar mamma kemur næstu helgi.

Njótið vikubyrjunar!

p.s. til hamingju með daginn pabbi!!

mánudagur, mars 08, 2004

Eldsvoði í Dalslandsgade!

Já, ég fór út í búð í dag eftir vinnu og mætti þá runu af brunabílum og þegar ég leit niður eftir götunni sem við búum við þá sá ég sótsvartan reyk og eldtungur út úr íbúð í blokk við hliðina á kollegíinu. Ég fór og fylgdist með þessu og sá að það var komið með fólk út í sjúkrabíla og heyrði svo áðan í fréttunum að það fóru 6 slasaðir á sjúkrahús en enginn þó mjög alvarlega brenndur. Það var óhugnalegt að horfa á þetta.

Helgin hefur annars verið alveg frábær. Ég arkaði með frænkunum í búðir á laugardaginn og stóðst freistingarnar bara nokkuð vel finnst mér. Við fórum svo út að borða á laugardagskvöldið og á kaffihús. Helena skrapp á djammið með vinum sínum hérna en við Þyri vorum alveg búnar eftir daginn og fórum bara heim. Sunnudagurinn fór svo bara í algjöra leti, nammiát og sjónvarpsgláp. Ég náði reyndar að klára dönskuritgerðina sem ég er mjög ánægð með, svo er bara smá fyrirlestur á morgun í tímanum. Ég þurfti svo að fara frekar snemma að sofa enda vaknaði ég 5:45 og mætti í vinnuna klukkan sjö. Ótrúlega auðvelt samt og dagurinn mjög fljótur að líða. Við fórum tvö með 6 elstu strákana á deildinni í Parken í fótbolta og það var mjög fínt. Er alveg hæstánægð þarna í vinnunni enda fer dönskunni sífellt fram og svo er maður farinn að kynnast fólkinu og krökkunum ennþá betur. Vonast bara til að fá sem mesta vinnu á næstu mánuðum.

Í kvöld er það svo bara almennt afslappelsi...

laugardagur, mars 06, 2004

Enginn tími fyrir söknuð!

Soldið langt síðan ég skrifaði síðast enda búið að vera nokkuð mikið að gera. Vann alla dagana í þessari viku nema á þriðjudag svo ég gæti nú kvatt Ívar almennilega.
Ég er farin að kunna bara ágætlega við mig þarna á leikskólanum og finnst þetta bara nokkuð skemmtileg vinna. Krakkarnir eru auðvitað misjafnlega erfiðir en allir eru skemmtilegir á sinn hátt. Það er slatti mikið af innflytjendabörnum og frekar fyndið þegar þau fara að tala e-k arabísku sín á milli. En ég hef amk ekki séð neina árekstra eða vandamál ennþá vegna þess að börnin eru af mismunandi uppruna. Reyndar kom upp smá vandamál í fyrradag þegar ein stelpa sem er Múhameðstrúar stal nesti frá danskri stelpu og það uppgötvaðist að þar á meðal var skinka. Það varð uppi fótur og fit og mikið rætt um hvort það þyrfti nú ekki að láta foreldrana vita og greyið stelpan var alveg miður sín þegar hún fattaði að þetta var svínakjöt. Mér fannst þetta nú bara frekar skondið.

Ég er svo búin að fara í tvö atvinnuviðtöl í vikunni. Annað var hjá Monsoon á Strikinu og var Assistant Manager starf. Ég sótti reyndar bara um venjulegt en var boðið að koma í þetta. Það er reyndar frekar furðulegt þar sem ég hef ekki einu sinni reynslu af að vinna í búð, hvað þá hjálpa til við að stjórna þar. Viðtalið gekk svo sem vel en managerinn hringdi í mig í gær og sagði að reynsluleysið myndi hamla mér of mikið. Hefði nú kannski geta sagt sér það fyrirfram! En hún bauð mér starf í Monsoon á Kastrup. Býst nú ekki við að taka við því enda tímakaupið lægra en á leikskólanum og svo nenni ég ómögulega að fara alla leið út á Kastrup á hverjum degi. Hitt viðtalið var vegna starfs í fatabúð í Fields, sem er ný og risastór verslunarmiðstöð sem er að opna á þriðjudaginn. Það er ábyggilega jafnillalaunað og hitt þannig að ég hugsa bara að ég haldi mig við leikskólann um sinn og vona að ég fá sem mesta vinnu þar.

Það lítur annars ekki út fyrir að ég geti látið mér leiðast þennan mánuð sem Ívar er í burtu þar sem það er fullt af heimsóknum framundan. Þyri og Helena frænkur mínar komu í gær og fara heim á mánudaginn, Hákon bróðir kemur næsta fimmtudag og verður til sunnudags, mútta mín kemur á föstudaginn eftir það og verður rúma viku og svo kemur Ása úr landafræðinni 1.apríl. Svo er Ívar bara kominn aftur áður en ég veit af:), þ.e.a.s. ef hann sleppur lifandi frá þessu ísbjarnabæli!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?