<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, apríl 25, 2004

Hellú

Jæja, þá er ég komin með pest enn eina ferðina og í þetta skiptið er hún allhressileg. Fór í vinnuna á föstudaginn og var með hálsbólgu þegar ég vaknaði, var svo komin með hita á hádegi en ætlaði að þrauka út vinnudaginn, sem ég og gerði næstum. Upplifði svo ca. hálftíma í helvíti á leiðinni heim, troðfullur strætó og ég sat við hliðina á manni sem laumaðist á mínútufresti í töskuna til að fá sér bjórsopa. Í metróinu tók svo ekkert betra við, endalausar tafir og vesen. Skreið nánast hingað inn og hef verið í hitamóki með hálsbólgu síðan þá, jibbí. Hef heyrt að þeir sem byrji að vinna á leikskóla séu einmitt veikir meira og minna fyrstu mánuðina. Aldeilis skemmtilegt. Ívar er hins vegar búinn að vera að dekra við mig á meðan og það bætir nú líðanina aðeins. Við erum svo heppin að hafa kynnst Íslendingi hérna sem er með fullt af stolnu efni á tölvunni sinni, Friends þætti, Idolið og fullt af bíómyndum, þannig að ég hef getað nýtt mér það í veikindunum þar sem við getum tengst inn á hans tölvu. Horfði á 2 myndir í gær. Önnur var 50 first dates og það var nú meiri steypan en samt hægt að hlæja af og til. Hin var The Passion of The Christ og hún fór vægast sagt ekki vel í mína beinverki, hef aldrei séð aðra eins útgáfu af síðustu dögum Jesú. Mælum ekki með henni fyrir viðkvæmar sálir. Mér varð svo um eftir þetta að ég svaf nánast frá kvöldmat og þangað til í morgun. Hefði frekar átt að horfa á nokkra ameríska idol þætti til að lyfta mér upp. Er verið að sýna þættina heima?

Hef ekki orku í meiri skrif.... Njótið þess sem eftir lifir helgar!

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Bleiubjakk

Hér er vor í lofti og greinilegt að þá lifna Danirnir við og verða meira kammó. Gott ef maður lifnar ekki sjálfur aðeins við. Á meðan veðrið helst svona gott þá er ég ánægð og þá er mun skemmtilegra að hjóla í vinnuna. Vinnuútlit var reyndar ekki mjög bjart fyrir þessa vikuna en svo var hringt í mig í dag og ég boðuð í staðin fyrir eina veika. Var því á vöggustofunni Gorillaerne í dag og það var fínt en ansi mikið meira puð í kringum þessi litlu. Þau þurfa alltaf að láta halda á sér og svo skilur maður ekki múkk af því sem þau segja greyin, svo ekki sé nú talað um stanslausar bleiuskiptingar, bjakk! Þá kann ég nú betur við að vera með eldri gríslingana. Verð á vöggustofunni á morgun en fer svo til þeirra eldri á föstudaginn og verð svo að hjálpa til í eldhúsinu í næstu viku. Prófaði það aðeins á mánudaginn og það var bara fínt, fyrir utan það að ég skrældi nánast af mér eina nögl þegar ég var að skræla ca. 40 kartöflur. Vona að ég komist ósködduð frá vinnunni í næstu viku!!

Jæja Orange County kallar.....

sunnudagur, apríl 04, 2004

Nýjasta nýtt

Bleeesuð öllsömul, ákvað að skella í eina færslu á bloggið þar sem ég gafst upp á að horfa á Pearl Harbour í sjónvarpinu, afspyrnuleiðinleg alveg. Ég er reyndar komin með einhvern bloggskrifleiða, fer kannski bara að gefast alveg upp á þessu og fara bara yfir í gamaldags tölvupóstssamskipti...

Síðasta vika var annars bara ágæt, var að vinna alla daga nema mánudaginn. Er farin að þekkja flesta krakkana með nafni og tel ég það nú bara nokkuð vel af sér vikið, miðað við hvað þau eru mörg. Það voru svo sem engir svakalegir hápunktar í vinnunni nema kannski þegar mér var sagt að faðir eins stráksins á leikskólanum, sem býr í Englandi, gæti komið á hverri stundu og rænt barninu. Foreldrarnir búa ekki saman og það er eitthvað ósætti í gangi og kallinn búinn að hóta því að ræna krakkanum nokkrum sinnum. Ég þurfti sem sagt að hafa sérstakt auga með stráknum þegar við vorum úti með krakkana og ég átti að láta strax vita ef ég sæi hávaxinn, þrekinn svertingja koma inn á leiksvæðið. Jeremías! Svona er að vinna á leikskóla á Nörrebro.

Á föstudaginn skrapp ég með Elizabeth bandarísku vinkonu minni á opnun á Galleríi á Vesterbro. Það var bara sæmó, þetta var reyndar íslenskur málari sem var með sýningu og dóttir hans bauð okkur þangað. Voða mikið af artí-fartí liði þarna – aðallega Íslendingum. Seinna um kvöldið tók ég svo á móti vinafólki Ívars (og mín svo sem líka;-)), Donnu og Sigþóri, en þau gistu hérna á kollegíinu í gestaherbergi yfir helgina. Ása úr landafræðinni var svo líka hérna í Köben yfir helgina þannig að við Selma hittum hana auðvitað og fengum að heyra allt landfræðislúðrið.

Þá hafið þið það, helgin og vikan í hnotskurn. Ég er búin að skella inn nýjum myndum frá heimsóknum í mars og apríl.

Svo eru bara 2 dagar í að elsku kallinn komi heim:=) Vona að honum gangi vel í prófinu á morgun.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?