<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 26, 2004

Vei!

Komin með fasta vinnu á leikskólanum allan júní, verð að leysa eina af sem er að fara í frí. Það er reyndar um að ræða vöggustofu sem mér finnst ekki alveg eins skemmtilegt og að vera með eldri krakkana en ég er bara ánægð að hafa fengið eitthvað. Framundan er því heill mánuður án óvissu hvað vinnu snertir! Ég get þá auðvitað eytt minni tíma með gestunum en ég reyni bara að bæta það upp eftir vinnu:)

Sibba vinkona er svo bara að koma á morgun og ég verð í fríi fram á næsta þriðjudag þannig að ég ætla að reyna að nýta tímann vel þangað til.

föstudagur, maí 21, 2004

Góðar fréttir

Var að fá tölvupóst frá einum af prófessorunum í St.Andrews og það lítur bara út fyrir að ég sé komin inn í skólann:)

Lítur líka út fyrir að við séum komin með okkar eigin íbúð hérna á kollegíinu. Við tökum líklega við henni um miðjan júní. Erum auðvitað ánægð með það, þótt tilboðið hefði mátt koma fyrr. Ívar þarf svo bara að vinna í því að fá skipt yfir í eins manns íbúð þegar hann kemur aftur hingað út. Svo var okkur að detta í hug að leigja íbúðina út á meðan við erum á Íslandi, þ.e. í einn og hálfan mánuð. Þannig að ef einhver veit af fólki sem vantar íbúð hérna úti frá byrjun ágúst fram í miðjan september þá látiði okkur vita. Erum líka til í að leigja íbúðina út í eina viku í einu.

Svo er frí í vinnunni hjá mér í dag þannig að það eru bara eintómar góðar fréttir í þessu bloggi;)

fimmtudagur, maí 13, 2004

Allt að verða vitlaust!

Hér er allt á suðupunkti vegna brúðkaups þeirra Mary Donaldson og krónprinsins. Þau eru búin að vera á fleygiferð um allan bæ í þessari viku og það er gjörsamlega sjónvarpað allan sólarhringinn frá ferðum þeirra. Liggur eiginlega við að maður sé að sogast inn í þessa kóngafólksdýrkun, ég hef allavega lúmskt gaman af þessu. Veit reyndar ekki hvort við leggjum í að fara í bæinn á morgun til að reyna að sjá eitthvað frá ferð þeirra í hestvagni um borgina. Sennilega best að vera bara heima að horfa á sjónvarpið. Sjáum til hvað við nennum að gera. Það borgar sig allavega að kíkja í bæinn um þessar mundir til að sjá allar skreytingarnar og myndirnar af þeim í öllum búðargluggum. Ég heyrði einhvers staðar að blómaskreytingarnar í bænum kosti 1 milljón danskar (12 ísl), meira ruglið! Svo eru allir á nálum yfir því hvernig veðrið verður og það lítur út fyrir að þau verði nú ekkert alltof heppin, að minnsta kosti verður hitastigið ekki sérlega hátt og möguleiki á rigningu. Það verður víst ekki allt keypt með peningunum!

Úr þjóðlífinu hér er ekki margt annað að frétta, nema þá helst þau tíðindi að Danmörk féll út úr undankeppni Júróvisjón, nahahhaaa ;-D. Þeir eru nokkuð súrir yfir því og býst ég ekki við að áhorf verði mikið á keppnina hérna, enda verða eflaust endursýningar á brúðkaupinu í marga daga á eftir og Danirnir áfram límdir við skerminn.

Annars er allt gott að frétta, bara vinna og skóli. Endalaust stuð!

Bið bara að heilsa ykkur í bili, ætla að skutla mér í einn combat tíma á meðan Ívar fer að fótboltast.
---
p.s. til hamingju með að vera búin að flytja fyrirlesturinn Kris!!! Vona að allt hafi gengið vel.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?