<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Síðasti dagurinn í Kaupmannahöfn
 
Langur dagur framundan við að pakka niður og þrífa fyrir gestina sem verða hérna í íbúðinni á meðan við verðum heima. Auðvitað þurfti að vera glampandi sólskin núna þegar ég vaknaði og lítur út fyrir að það verði heitt í dag! Sumarið virðist loksins vera að koma hérna í Danmörku og þá er sko eins gott að það sé ekki að fara heima á Íslandi.

Þetta verður víst síðasta bloggið mitt frá Köben, býst nú við að Ívar haldi þessu áfram þegar hann kemur út. Ég kem svo bara með pistla frá St.Andrews næsta árið. Það er ekki laust við að dálítill söknuður komi í mann við tilhugsunina um að yfirgefa Köben. Árið er búið að vera einstaklega lærdómsríkt og gott. Ég vona bara að næsta ár verði jafnskemmtilegt þótt Ívar minn verði ekki með mér.

Við fljúgum heim á hádegi á morgun og hlökkum mikið til að hitta ykkur öll aftur :-)

Hér með er bloggið komið í sumarfrí!


sunnudagur, júlí 18, 2004

Loksins
 
Góða veðrið kom svo sannarlega í gær. Heiðskírt og heitt allan daginn og við nýttum auðvitað tækifærið og fórum á ströndina. Fyrsta skiptið í sumar sem bikiníið var brúkað. Við vorum reyndar aðeins of lengi í gær og þar af leiðandi fékk húðin að kenna dálítið á því, var ekki alveg nógu dugleg að bæta á sólvörnina. Ívar er hins vegar á góðri leið með að verða að svertingja eins og venjulega:-). Í dag er svo búið að vera mjög gott veður líka þótt ekki sé alveg heiðskírt en alveg nógu heitt samt, sennilega um 24-25 gráður. Það er bara rétt að vona að veðrið verði álíka gott þegar við verðum í Tour de Bornholm;-)
 
Helgin er annars búin að vera mjög fín. Fórum í grill til Selmu og Søren og átum yfir okkur og spiluðum svo Trivial á dönsku! Gekk bara furðulega vel enda fengum við svo sem leyfi til að sleppa spurningum fyrir innfædda. S&S fóru reyndar með sigur af hólmi enda hefði náttúrulega annað verið hneyksli!
 
Núna ætlum við hins vegar að skella okkur í mat heim til Siggu Birnu:)
 
Vona að veðrið hafi leikið við ykkur heima líka!

sunnudagur, júlí 11, 2004

Erfið nótt!

Vöknuðum klukkan tvö í nótt við læti í færeyska parinu fyrir ofan okkur. Þau hafa hingað til látið sér nægja að öskra og skella hurðum á kvöldin en núna sprakk allt í nótt. Hef sjaldan heyrt önnur eins öskur og læti. Verst að maður skilur ekki færeyskuna alveg nógu vel til að vita hvað er að gerast. Hæst öskrar stelpan og hún virðist yfirleitt vera að ásaka strákinn um eitthvað svakalegt því að maður heyrir hann endurtaka sömu setninguna, sem er eitthvað á þessa leið: gjörde jeg ej. Hann virðist allavega vera að þverneita fyrir eitthvað sem hann hefur gert. Við erum farin að halda að stelpan sé eitthvað meira en lítið veil á geði. Mér heyrist þau vera byrjuð aftur rétt í þessu, sjaldan sem þetta er svona um hábjartan daginn, sunnudagurinn leggst greinilega eitthvað illa í þau. Við vorum annars komin á fremsta hlunn með að hringja í lögguna á tímabili í nótt en svo róaðist þetta smám saman. Við höfum hins vegar mestar áhyggjur af því að þau séu með barn en erum reyndar að vona að þetta barn sem heyrist stundum í sé frekar á hæðinni fyrir neðan. Svakalegir þessir Færeyingar! Eru upp til hópa frekar fyndið lið, yfirleitt mjög hippalega klætt og sjúskað og mikið fyrir að elda ógeðslega illa lyktandi mat.

Svo maður haldi nú áfram með sögur af brjáluðum nágrönnum þá varð ég vör við svakalegt háreysti neðan af götunni í fyrradag. Heyrði að það var einhver kall að öskra ókvæðisorð að konunni sinni og þegar ég leit út um gluggann þá sé ég að hann tekur sig til og sparkar af öllu afli í konuna og gengur síðan bara áfram í rólegheitum, nb. með barnavagn á undan sér. Konan haltrar svo í hina áttina. Það er nú ekki alveg í lagi með svona lið!! Þetta gerðist nú bara um hábjartan dag.

En svo þið haldið nú ekki að þetta sé eitthvað brjálað gettó hérna hjá okkur þá heyrir þetta nú alveg til undantekninga og er frekar friðsælt hverfi

P.S. Til hamingju með afmælið Kris, vona að dagurinn verði góður!

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Friðný komin og farin

Á mánudaginn kom Friðný frænka í heimsókn eftir að hafa verið í drullusvaði og skemmtilegheitum á Hróarskeldu í nokkra daga. Hún var hæstánægð með hátíðina þrátt fyrir veðrið. Við fórum svo auðvitað á Strikið á mánudeginum, nema hvað. Á þriðjudeginum fórum við í dýragarðinn og gerðum okkur aðeins að fíflum þar sem við erum nú báðar ansi miklir dýravinir, svo vægt sé til orða tekið. Ívar sleppti því að fara með okkur, honum þykir yfirleitt nóg um þegar ég byrja að “tala” við blessuðu dýrin, hvað þá að við séum tvær. Um kvöldið skelltum við okkur svo í Tívolíið og fórum þar í nýja rússíbanann og líka þann gamla. Báðir voru mjög skemmtilegir og mikið öskrað. Eftir að Friðný fór heim í gær þá ákváðum við að skella okkur í hjólatúr norður á Bellevue strönd sem er rétt hjá Bakken. Það var bara sæmilegasta veður, loksins!, og við fengum alveg slatta af sól. Reyndar ekki eins mikið og sumir á ströndinni sem strípluðust um á Adams og Evuklæðunum. Þeir mega eiga það Danirnir að það er ekki mikil feimnin í þeim!

Var annars að setja myndir inn!

fimmtudagur, júlí 01, 2004

ROP!!!!

Vorum að enda við að borða yndislegt íslenskt fjallalamb! Friðgerður kom með læri til okkar í tveimur bútum og er sá fyrri nánast búinn núna. Fyrsta skipti sem við eldum læri og það gekk bara alveg snilldarvel. Þetta var ekta “mömmu” máltíð, með brúnuðum kartöflum og sósu – vantaði bara grænar baunir. Listaverk mmmmm.........!

Annars er nú ekki mikið í fréttum. Ég er komin í langþráð sumarfrí þangað til við förum heim og ætla sko að njóta þess. Vona að veðrið verði skárra í júlí en júní svo maður fái nú að upplifa ekta danskt sumar. Danir eru hálfsúrir greyin eftir þennan júnímánuð og flykkjast suður á bóginn í sólina eða liggja í ljósabekkjunum.

Úff ég man ekki eftir neinu skemmtilegu að segja frá núna, held ég þurfi að leggjast aðeins á meltuna.

Reynum að vera dugleg við blogg í fríinu, ég lofa Hulda!

Góða helgi ef ekkert heyrist meira frá okkur fyrir hana. Bestu golfstraumar til Dalbúa:) Bíð spennt eftir að heyra úrslitin!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?