<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, september 27, 2004

Helloo there lads and lassies

Þá er ég búin að vera hérna í St.Andrews í 6 daga og vistin fer óðum batnandi. Leist nú eiginlega ekkert á blikuna þegar ég kom á þriðjudaginn í íbúðina í 5 Union Street. Herbergið er vægast sagt lítið og útsýnið yfir á múrvegg! Reyndar er það mjög snyrtilegt og íbúðin öll. Samleigjendur mínir eru allir í stærri herbergjum sem er frekar fúlt en þau eru öll mjög viðkunnaleg þannig að ég get ekkert verið pirruð út í þau. Ég bý sem sagt með fjórum öðrum postgrad (búin með bs) nemendum; ítölskum strák sem heitir Enzo (heimspekinemi), Louise sem er bresk (sjávarlíffræðinemi), Maria sem grísk/argentínsk (listasögunemi) og loks Nikolaj sem er upprunalega frá Kóreu en er uppalinn í Danmörku (heimspekinemi). Nikolaj og Maria eru par.

St. Andrews er hinn viðkunnalegasti bær og mjög fallegur enda mikið af gömlum byggingum og tvær strendur. Ég er nú ekki búin að kanna alla króka og kima ennþá en ég efast um að það muni taka langan tíma þar sem bærinn er frekar lítill. Ég bý í miðbænum og það tekur mig t.d. bara um 10 mínútur að hjóla til Siggu og Elvars sem búa í útjaðri bæjarins. Þess vegna finnst mér frekar fyndið að heyra fólk tala um að eitthvað sé langt í burtu hérna. Eftir að hafa þurft að hjóla hálftíma í vinnuna í Köben þá finnst mér það hálfhlægilegt, en þetta er víst allt afstætt.

Fólkið hérna er alveg ótrúlega vingjarnlegt, hef sjaldan upplifað annað eins. Ég hélt hurð fyrir gamla konu í fyrradag og hún ætlaði bara ekki að hætta að þakka mér fyrir, hélt jafnvel að hún myndi bjóða mér heim í kaffi. En þetta á kannski bara við um fólkið sem býr hérna, stúdentarnir koma úr öllum áttum og eru eflaust misjafnir. Hérna eru alveg ótrúlega margir Bandaríkjamenn og greinilega frekar ríkt lið. Það virðist eiga við um flesta þessa nema að þeir hafa þónokkuð mikla peninga á bakvið sig. Ekki það að við Íslendingarnir séum eitthvað öðruvísi í þeim efnum, við vöðum auðvitað í styrkjum frá LÍN.

Svo er maður auðvitað á þessum stutta tíma búinn að hitta alla Íslendingana sem eru hér, alveg merkilegt hvað það var auðvelt. Siggu og Elvar þekkti ég auðvitað en síðan hafa bæst í hópinn Björk, Flóki, Sölvi og ein önnur stelpa sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir en hana var ég búin að spjalla í smá tíma við á ensku áður en við föttuðum að við værum báðar íslenskar!

Þessa fyrstu daga er ég að mestu búin að nýta í að viða að mér ýmsu dóti sem mig vantaði og klára skráninguna í skólann. Ég er líka búin að vera á fullu að reyna að koma á internettengingu hingað í íbúðina. Já, og svo gott fólk er ég búin að skrá mig í golfklúbbinn í St.Andrews. Ef ekki núna þá aldrei segi ég bara, enda er hér elsti golfvöllur í heimi og helmingur búðanna hérna selja golfvörur! Ég ætla á byrjendanámskeið enda bara farið 2x í golf á ævinni en ég hlakka bara nokkuð mikið til. Verð auðvitað ekki með Siggu og Elvari enda eru þau nokkuð meira pro en ég;-). Ég skora svo bara á ykkur í golf næsta haust þegar ég kem heim.

Vona að þið hafið það öll gott heima og munið að vera dugleg að vera í sambandi. Kaupið ódýru símakortin (Heimskort og Atlasfrelsi) og sláið á þráðinn til mín eða skrifið t-póst/bréf, það myndi gleðja mitt litla hjarta. Geri auðvitað það sama fyrir ykkur líka;-)

Síminn hérna í íbúðinni er: (0045) 01334 470 820 og heimilisfangið:
5 Union St.
St.Andrews
Fife KY16 9PQ
Scotland

This page is powered by Blogger. Isn't yours?