<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 22, 2004

Hola!

Það er víst best að blogga aðeins svo maður gleymi nú ekki alveg hvernig á að gera það. Ég er víst búin að vera hérna í St.Andrews í rúman mánuð núna og allt komið á fullt í skólanum. Mér finnst ég kannski vera fullmikið í skólanum miðað við hvað ég á að vera að lesa mikið og gera mikið af verkefnum en það þýðir víst lítið að kvarta yfir því. Verð sennilega ennþá meira í skólanum eftir áramót því þá verð ég í 6 fögum. Mér líst annars nokkuð vel á námið. Það er lögð mikil áhersla á að kenna manni að rannsaka á réttan hátt og skrifa enda er þetta mastersnám að hluta til hugsað fyrir þá sem ætla áfram í doktorsnám eða vilja vinna við rannsóknir. Ég stefni þó ekki í doktorsnámið en rannsóknatengd vinna væri álitleg – sjáum til hvort eitthvað verður að hafa að ári liðnu! Kennararnir hérna eru misjafnir eins og annars staðar, sumir virkilega góðir, aðrir ágætir en gamaldags í kennsluaðferðum osfrv.

Hvað varðar íbúðina þá kann ég alltaf betur og betur við hana. Sérstaklega eftir að Ívar kom því honum leist svo vel á þetta allt saman, liggur við að hann sakni herbergisins míns – honum fannst það eitthvað svo notalegt. Ég er nú líka farin að sætta mig betur við hvað það er lítið. Það stækkaði nú líka um allan helming þegar ég loksins fékk internetið tengt hingað upp. Ótrúlegt hvað það tók nú annars langan tíma. Það virðist vera hálfgert tregðulögmál hérna hvað tækni varðar. Ég þurfti að bíða í 10 daga eftir nettengingunni og 3 vikur eftir því að fá bankareikning og netbanka. Veit nú reyndar ekki til hvers þessi netbanki á að vera, get ekki einu sinni borgað reikninga í gegnum hann. Í þokkabót gat ég ekki fengið debetkort hérna af því að ég verð bara í eitt ár – fékk bara hraðbankakort. Bankakerfið og þjónustan heima eru sko hundrað sinnum hraðvirkari en hérna og í Danmörku. Ég ætla nú ekki einu sinni að byrja á því að ræða hvað bankarnir í Baunaveldi eru steiktir. Þar þarf maður t.d. að borga stórar fúlgur til þess að fá að borga reikninga!! Jæja, nóg um þann pirring. Leyfi Ívari bara að tjá sig um það ef hann hefur þörf fyrir.

Samleigjendur mínir eru mjög fínir allir þótt auðvitað sé maður stundum að pirra sig á þeim en það er nú alveg ótrúlega lítið samt. Reyndar á Ítalinn það til að vera dálítið hávær og það er ekkert sérlega hagstætt í húsi sem þessu þar sem veggirnir eru mjög þunnir. Hann er heimspekingur eins og áður hefur komið fram og hugsar best með því að ganga um gólf! Týpískt fyrir heimspeking – hahaha, allur krafturinn fer í vangaveltur og ábyggilega fátt sem kemst niður á blað. Ég myndi áætla að hann gangi svona um það bil 5-6 km á hverjum degi upp í þessu blessaða herbergi sínu og hann er ekki beinlínis léttstígur! Manaði mig upp í að ræða þetta við hann einn daginn og greyið tók þessu öllu vel og lofaði bót og betrun. Gaf mér líka fúslega leyfi til að banka í loftið til að minna sig á. Hann er annars voða skondinn karakter, borðar ekkert nema pizzur og pasta.

Svo er nú best að maður minnist aðeins á golfið:=) Fór í annan tímann minn í gær og ég hugsa bara að ég eigi eftir að vera komin með hálfgerða bakteríu eftir þessa dvöl hérna. Svo er ég nú bara að ég held nokkuð góð í þessu þó ég segi sjálf frá – amk var kennarinn ánægður með mig. Ég þyrfti bara eiginlega að reyna að fara á æfingasvæðið á milli tíma til að æfa mig meira. Kannski ég hætti bara þessum lærdómi og fari bara að leika mér í golfi :)

Jæja, nú er ég alveg þurrausin. Ætlaði að reyna að gera svo sem eitt verkefni fyrir svefninn – spurning hvort maður orkar það – það er nú einu sinni föstudagskvöld! Stefnir í aðra lærdómshelgi – jibbííí!

Ciao a tutti !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?