<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, nóvember 27, 2004

Sælt veri fólkið

Það er víst liðið svolítið langt síðan maður hefur sett eitthvað hérna inn. En núna er ég sem sagt að morkna yfir ritgerðarskrifum og ákvað að taka mér smá hlé til að segja ykkur hvað hefur dregið á mína daga hérna. Frá því að Ívar fór þá hefur verið brjálað að gera í skólanum og á eflaust eftir að verða brjálað næstu 3 vikur. Ég er búin með tvö tölvuverkefni, eina ritgerð og hálfnuð með aðra sem ég stefni á að reyna að klára sem fyrst svo ég geti farið að skrifa þá þriðju, meiri geðveikin!! Ekkert nær maður svo að lesa fyrir kúrsana sem próf verða í þannig að jólin fara í frumlestur á ansi miklu efni fyrir próf. Stressið því ansi mikið farið að gera vart við sig. Nú út af allri þessari verkefnavinnu þá hefur nú ekki verið mikið um skemmtun, nema þá aðallega golfið, sem ég er alveg að fíla betur og betur með hverjum tímanum og er búin að ákveða að fara á framhaldsnámskeið eftir jól. Hlakka svo bara til að fara að spreyta mig á golfvöllunum heima:).

Svo er nú gaman að segja frá því að ég er komin í fóstur hjá fjölskyldu hérna í bænum ahaha. Frétti af því að erlendir stúdentar gætu fengið svokallaðar “contact” fjölskyldur hérna sem byðu þeim heim til sín. Ég ákvað að skella mér á eina slíka og fékk strax samband við konu sem heitir Elspeth sem býr með tvíburasonum sínum tveim hérna og hún bauð mér heim til sín áðan í kaffi. Elspeth er sálfræðingur og er nýskilin og það var mjög skemmtilegt að koma í heimsókn til hennar. Það var reyndar bara annar tvíburinn heima og hann virkaði vel á mig. Svo eiga þau líka lítinn hund sem heitir Heidi og ekki var það nú verra. Við spjölluðum um alla heima og geima, Ísland, pólitík, tungumál og allt þar á milli. Er bara strax farin að hlakka til næstu heimsóknar, sem verður kannski fyrir jólin áður en ég fer heim. Hún sagðist ætla að bjóða mér ef þau næðu að kaupa jólatré fyrir þann tíma og þá gæti hún eldað eitthvað jólalegt eins og “minced pie” – jibbííí, hljómar vel. Meira hvað þessir Bretar eru mikið fyrir alls konar pie, get ekki sagt að ég sé neitt svakalega hrifin af þeim.

Ég er annars farin að hlakka mikið til að koma heim 17.des. Verð í rúmar þrjár vikur þannig að ég næ nú að slappa eitthvað af þrátt fyrir prófalestur, það verður ansi kærkomið. Ég efast um að ég skrifi meira inn hérna fyrir jól, verð bara að stóla á að Ívar segi frá einhverju skemmtilegu.

Jæja, aftur að ritgerðinni....

Bæjó

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Gosið toppað!!!

Jæja loksins skrifa ég og ætla mér þá að toppa æsispennandi fréttir af gosinu;) Þannig er nefnilega mál með vexti að ég gekk í gegnum tölvuverið í skólanum í morgun á leiðinni í tíma og verður allt í einu litið á dreng sem situr við tölvu eina og viti menn, hallelúja, loksins! Prinsinn (ekki drauma minna þó) mættur þarna í öllu sínu veldi. Ég þurfti aðeins að nudda augun og fá staðfestingu hjá bekkjarsystur minni áður en ég áttaði mig fyllilega á þessu. Hann sat bara þarna eins og hver annar námsmaður í tölvunni. Ég átti auðvitað í mestu erfiðleikum með að einbeita mér í tímanum eftir þetta, langaði mest að stökkva niður í tölvuver og njósna aðeins. Fyrir ykkur stelpur sem eru alveg æstar í þessar fréttir þá var hann voðalega myndarlegur (en auðvitað ekki eins myndarlegur og þú Ívar minn;)) og virtist bara frekar feiminn þegar hann leit upp frá tölvunni. Ábyggilega ekki tekið út með sældinni að vera prins! Stelpurnar í bekknum voru alveg hissa að ég hafi ekki séð hann áður, hann er víst alltaf í tölvuverinu. Ég hlýt að vera svona annars hugar! Hef augun hjá mér í framtíðinni. Mér fannst hann samt mun barnalegri svona í raunveruleikanum en hann virðist í fjölmiðlunum.

Nóg um prinsinn:) Allt ágætt héðan að frétta, nema auðvitað nóg að gera, surprise! Hef verið að veiða gamalt fólk undanfarna daga... Aðalverkefnið í einum kúrsinum er að æfa sig í að taka viðtöl sem hluta af rannsókn og markhópurinn er gamalt fólk, fer ekkert nánar út í það um hvað verkefnið snýst en þetta er búið að vera ansi erfitt. Eftir að hafa spurt um 15 manns þá náðum við einni gamalli konu. Förum til hennar þrjú á morgun og viðtalið á að taka um klukkutíma. Þetta var voða krúttleg kona og verður ábyggilega fróðlegt að heyra hvað hún hefur að segja. ´

Síðan er það svo bara golfið á morgun - 4. tími og svo Ívar að koma á laugardaginn, jibbííííí. Hann verður hérna í vetrarfríinu mínu. Verðum reyndar bæði að læra en ætlum að taka okkur frí til að skreppa til Edinborgar til Kötu vinkonu og svo ætla ég að elda afmælismáltíð fyrir Siggu sem á afmæli á morgun:)

Þetta er sem sagt planið næstu daga, þá hafið þið það:) Reynið nú endilega að toppa mínar fréttir hérna í kommentunum;) hehe...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?