<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 30, 2005

Það helsta frá St.Andrews.

Best að skella einhverju smáræði hérna inn núna. Á meðan Ívar fagnar því að ljúka sinni mastersritgerð þá “fagna” ég því að byrja mína! Hún verður nú ekki eins massíf og Ívars ritgerð enda megum við ekki fara yfir 15þúsund orða markið og höfum bara 3 mánuði til að gera hana. Kerfið í Bretlandi er annað en á Norðurlöndunum. Svo þarf ég heldur ekkert að fara í próf eins og Ívar, sem mér finnst nú reyndar alveg fáránlegt. Eins og það sé ekki nóg að gera þessa blessuðu ritgerð og kynna hana!

En ég er sem sagt alveg á fullu núna í að redda öllum gögnum og gera mér almennilega grein fyrir hvernig ég mun vinna gögnin. Mér er alltaf að detta í hug alls konar ný vandamál en sem betur fer þá saxast á þau líka. Ég sendi tölvupósta eins og óð manneskja á fólk heima og hér. Ég þarf nefnilega að fá sem mest á hreint áður en ég fer heim 9.júní. Þarf að koma málum á hreint við leiðbeinanda minn og sjá til þess að hann samþykki það sem ég er að gera.

Sem betur fer er nú ekkert ofsalega gott veður búið að vera hérna eins og í Danmörku, því þá væri nú heldur leiðinlegt að hanga inni og læra. Þessa stundina er ég með opinn gluggann hjá mér og það er algjört skýfall. Ansi notalegt að heyra svona í rigningunni.

Annars ekki mikið að frétta. Við sambýlingarnir hérna vorum með smá matarboð á laugardaginn og fórum eftir það í postgrad partý á einu residensinu hérna. Það var alveg frábært og langt síðan ég hef dansað svona mikið! Á morgun fer ég svo út að borða með bekknum mínum og einum kennaranum, svona eins konar kveðjuhittingur.....( uuu rigningin var að breytast í haglél sem skoppar hérna inn!! Gleðilegt sumar!). Á miðvikudaginn er svo lokaspretturinn í Desperate Housewives, tveir lokaþættir sýndir í röð. Þá förum við Shawn (sem er í bekk með Siggu) til Siggu og Elvars að glápa. Spennó!

Adieu!

þriðjudagur, maí 24, 2005

Til hamingju með afmæli Ívar!

Jæja þá er maður orðinn einu árinu eldri og vitrari og Ívar líka! Hann fær ekki að njóta þess lengi að vera yngri en ég. Leiðinlegt að geta ekki verið saman á afmælisdaginn en við bætum það bara upp næst.

Ég eyddi gærdeginum í Edinborg með Siggu. Það var alveg æði. Hún kom með afmælismorgunkaffi handa okkur í lestina og svo bauð hún mér út að borða í Edinborg. Síðan þrömmuðum við gjörsamlega af okkur fæturna í búðunum. Keyptum engin ósköp en samt svona smá. Í gærkvöldi var ég svo bara stanslaust í símanum við Ísland og Danmörku.

Svo er ég nú líka búin að vera sæmilega dugleg í dag bara. Byrjaði daginn á að hringja í danska “skattavesenið” af því að ég skildi ekki alveg ársuppgjörið sem ég fékk frá þeim. Þar stóð að þeir ætluðu að leggja inn á mig 200 þús kall vegna ofgreidds skatts. Þar sem ég er nú svo ofurheiðarleg þá ákvað ég að kanna þetta betur. Kom í ljós að þeir héldu að ég hefði verið í skóla þann tíma sem ég var að vinna í fyrra og þá fær maður víst einhvern skattaafslátt. Konan í símanum var MJÖG þakklát og kannski soldið hissa líka. Ég hefði auðvitað geta hirt þetta og bara réttlætt þetta þannig að Danirnir skulduðu okkur Íslendingum nú bara annað eins eftir að hafa haldið okkur í ánauð árum saman... En nei ég ákvað að það væri ekki alveg nógu gott “karma”. Eftir þetta fór ég að ná í lokaritgerð í einum kúrsinum og gekk bara rosalega vel.

Nú svo fór ég í ýmiss konar stúss í bænum. Gott veður í dag og allir léttklæddir með ís í hendi. Ég ætlaði að vera voðalega dugleg að byrja á ritgerðinni fyrir sumarið en held ég fresti því þangað til á morgun. Hitti leiðbeinandann minn, Chris Dibben, á morgun og þá fæ ég vonandi smá spark í rassinn!

Núna ætla ég svo bara að skella mér í smá jóga ...

Ha det godt!

miðvikudagur, maí 18, 2005

Skjálfti

Jæja þá er víst komið að síðasta prófinu og reyndar því eina. Fer á morgun klukkan 14 og er orðin nett stressuð fyrir það. Það er nefnilega svo hrikalega naumt skammtað tímanum í prófum hérna. Við eigum að velja eitt efni af þremur til að skrifa um og höfum bara klukkutíma til þess. Eins og gefur að skilja þá er ekki mikið pláss fyrir mistök á svo stuttum tíma. En ég hugga mig við að þetta er mjög líklega síðasta prófið mitt EVER! Maður á reyndar aldrei að segja aldrei... En ég verð ansi glöð þegar ég klára á morgun:)

Svo ætla ég að reyna að horfa á undankeppnina í Júró um kvöldið. Var reyndar að fatta að Bretar eru ekkert að sýna hana af því að þeir eru komnir í úrslitin. Ég held samt ennþá í vonina að þetta verði sýnt á netinu hjá Rúv eða öðrum skandinavískum stöðvum. Ég er annars orðin eitthvað óvenju spennt yfir þessari keppni - getur reyndar verið að ég sé eitthvað að rugla þessu saman við prófaspenninginn:)

Hugsið til mín á morgun, takk!

p.s. Það skeit á mig fugl í dag! Ég kýs að líta á það sem gæfumerki!

mánudagur, maí 02, 2005

Það er komið sumar, tralalala!

Jæja ætli það sé ekki kominn tími á nýtt blogg... orðin eitthvað leið á haggisblogginu. Maímánuður hefst svona líka vel hérna í St.And. Í dag er 17 stiga hiti og sól á köflum. Erum búin að taka okkur tvær göngutúrapásur frá lærdómnum og njóta þess í botn að geta gengið um sæmilega léttklæddur. Við erum nú reyndar bara mestu kuldaskræfurnar hérna held ég, flestir aðrir eru bara komnir á strandarsandala, pils og stuttbuxur. Þetta lið er nú reyndar dálítið klikkað finnst mér, um leið og sólin glennir sig eitthvað þá er fólk bara komið úr - og ég ennþá með trefilinn!

Helgin var annars mjög fín, afköstin voru bara ágæt í lærdómnum og svo nýttum við góða veðrið í smá útiveru. Fórum í mega-göngutúr á laugardeginum, nánast bara í kringum bæinn allan. Sáum kanínur, íkorna, fullt af fallegum kirsuberjatrjám og svona ca. þúsund hunangsfluguhlussur. Já, vorið er sko komið hérna!

Annars gengur allt á áætlun hjá Ívari og mér held ég bara líka. Er að skrifa síðustu ritgerðina sem ég skila í lok vikunnar og svo hef ég viku til að gera rannsóknartillöguna sem ég þarf að halda fyrirlestur um 13.maí fyrir fullum sal af fólki úr deildinni, jei! Eftir það tekur bara við próflestur í 5 daga og 19.maí verð ég svo búin með formlegt nám hérna og við taka lokaritgerðarskrif. En það verður sko tekin smá pása eftir prófið!

Vona að þið hafið það öll gott, hvar sem þið eruð!
Ciao a tutti!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?