<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 27, 2005

Til hamingju cand.scient Ívar Örn;)

Ívar var að hringja og ég er barasta alveg að springa úr stolti. Hann stóð sig alveg glæsilega og náði sér í 11 í einkunn sem samsvarar svona u.þ.b 9.7 á íslenskum kvarða. 13 er allrahæst og 12 er ekki inni í skalanum. Hann fékk rosalega góð ummæli frá kennurunum og prófdómarinn sagði að þetta væri alveg virkilega góð ritgerð sem hann hefði notið þess að lesa. Ívar er auðvitað alveg í skýjunum sem og ég:) Verst að ég get ekki fagnað með honum í dag. Það bíður þangað til hann kemur heim á fimmtudaginn!

sunnudagur, júní 05, 2005

Upp á við!

Þá fer bara dvölinni hérna í St.Andrews að ljúka. Ég er ekki alveg búin að ná þessu ennþá held ég. Árið er búið að líða ótrúlega fljótt þótt það hafi verið strembið. Ég á alveg pottþétt eftir að sakna þessa litla bæjar mikið. Hérna er allt svo nálægt manni að maður getur gengið allt; skólinn, búðirnar, bankinn, pósthúsið, bókasafnið, bíóið, veitingastaðirnir, allt er þetta í innan við 500 metra göngufjarlægð. Ég hlakka sko örugglega ekki til að koma heim í umferðateppurnar eftir að hafa verið hérna. En ég hlakka mjög mikið til að koma heim og hitta vini og vandamenn. Það á ábyggilega eftir að verða eitthvað skrítið að vera ekki að fara út strax aftur en það verður æði að hafa allt dótið mitt á sama stað.... eða svona næstum allt. Ívar kemur auðvitað með seinasta hlutann af því þegar hann kemur frá Danmörku. Það hefði annars verið voða gaman að geta bara komið heim og tekið sér smá sumarfrí. En ég þarf víst að fara að hanga inni við lærdóminn þar til í lok ágúst:(

Annars eru síðustu dagar búnir að vera fínir. Fór út að borða með skólafélögum og horfði á svakalegan lokaþátt í Desperate hjá Siggu. Svo hitti ég aftur bekkinn á föstudaginn og við fórum á bóndabæ hérna rétt fyrir utan bæinn að tína jarðaber í sól og hita. Núna á ég soldið mikið af jarðaberjum sem ég þarf að reyna að klára, missti mig aðeins í tínslunni! Ætli ég píni þau ekki ofan í múttu og pabba þegar þau koma á eftir. Hlakka mikið til að sjá þau. Þau eru búin að vera í Glasgow í 2 daga og koma svo hingað um eittleytið í dag. Ég ætti eiginlega aðeins að taka til í 7 fermetra herberginu mínu - já ég var að mæla það rétt áðan. Svona kannski í minna lagi, en þetta gat maður og m.a.s. gátum við Ívar verið hérna saman í mánuð. Fyrst við gátum það þá getum við allt held ég! En núna liggur leiðin bara upp á við....:-)

mánudagur, maí 30, 2005

Það helsta frá St.Andrews.

Best að skella einhverju smáræði hérna inn núna. Á meðan Ívar fagnar því að ljúka sinni mastersritgerð þá “fagna” ég því að byrja mína! Hún verður nú ekki eins massíf og Ívars ritgerð enda megum við ekki fara yfir 15þúsund orða markið og höfum bara 3 mánuði til að gera hana. Kerfið í Bretlandi er annað en á Norðurlöndunum. Svo þarf ég heldur ekkert að fara í próf eins og Ívar, sem mér finnst nú reyndar alveg fáránlegt. Eins og það sé ekki nóg að gera þessa blessuðu ritgerð og kynna hana!

En ég er sem sagt alveg á fullu núna í að redda öllum gögnum og gera mér almennilega grein fyrir hvernig ég mun vinna gögnin. Mér er alltaf að detta í hug alls konar ný vandamál en sem betur fer þá saxast á þau líka. Ég sendi tölvupósta eins og óð manneskja á fólk heima og hér. Ég þarf nefnilega að fá sem mest á hreint áður en ég fer heim 9.júní. Þarf að koma málum á hreint við leiðbeinanda minn og sjá til þess að hann samþykki það sem ég er að gera.

Sem betur fer er nú ekkert ofsalega gott veður búið að vera hérna eins og í Danmörku, því þá væri nú heldur leiðinlegt að hanga inni og læra. Þessa stundina er ég með opinn gluggann hjá mér og það er algjört skýfall. Ansi notalegt að heyra svona í rigningunni.

Annars ekki mikið að frétta. Við sambýlingarnir hérna vorum með smá matarboð á laugardaginn og fórum eftir það í postgrad partý á einu residensinu hérna. Það var alveg frábært og langt síðan ég hef dansað svona mikið! Á morgun fer ég svo út að borða með bekknum mínum og einum kennaranum, svona eins konar kveðjuhittingur.....( uuu rigningin var að breytast í haglél sem skoppar hérna inn!! Gleðilegt sumar!). Á miðvikudaginn er svo lokaspretturinn í Desperate Housewives, tveir lokaþættir sýndir í röð. Þá förum við Shawn (sem er í bekk með Siggu) til Siggu og Elvars að glápa. Spennó!

Adieu!

þriðjudagur, maí 24, 2005

Til hamingju með afmæli Ívar!

Jæja þá er maður orðinn einu árinu eldri og vitrari og Ívar líka! Hann fær ekki að njóta þess lengi að vera yngri en ég. Leiðinlegt að geta ekki verið saman á afmælisdaginn en við bætum það bara upp næst.

Ég eyddi gærdeginum í Edinborg með Siggu. Það var alveg æði. Hún kom með afmælismorgunkaffi handa okkur í lestina og svo bauð hún mér út að borða í Edinborg. Síðan þrömmuðum við gjörsamlega af okkur fæturna í búðunum. Keyptum engin ósköp en samt svona smá. Í gærkvöldi var ég svo bara stanslaust í símanum við Ísland og Danmörku.

Svo er ég nú líka búin að vera sæmilega dugleg í dag bara. Byrjaði daginn á að hringja í danska “skattavesenið” af því að ég skildi ekki alveg ársuppgjörið sem ég fékk frá þeim. Þar stóð að þeir ætluðu að leggja inn á mig 200 þús kall vegna ofgreidds skatts. Þar sem ég er nú svo ofurheiðarleg þá ákvað ég að kanna þetta betur. Kom í ljós að þeir héldu að ég hefði verið í skóla þann tíma sem ég var að vinna í fyrra og þá fær maður víst einhvern skattaafslátt. Konan í símanum var MJÖG þakklát og kannski soldið hissa líka. Ég hefði auðvitað geta hirt þetta og bara réttlætt þetta þannig að Danirnir skulduðu okkur Íslendingum nú bara annað eins eftir að hafa haldið okkur í ánauð árum saman... En nei ég ákvað að það væri ekki alveg nógu gott “karma”. Eftir þetta fór ég að ná í lokaritgerð í einum kúrsinum og gekk bara rosalega vel.

Nú svo fór ég í ýmiss konar stúss í bænum. Gott veður í dag og allir léttklæddir með ís í hendi. Ég ætlaði að vera voðalega dugleg að byrja á ritgerðinni fyrir sumarið en held ég fresti því þangað til á morgun. Hitti leiðbeinandann minn, Chris Dibben, á morgun og þá fæ ég vonandi smá spark í rassinn!

Núna ætla ég svo bara að skella mér í smá jóga ...

Ha det godt!

miðvikudagur, maí 18, 2005

Skjálfti

Jæja þá er víst komið að síðasta prófinu og reyndar því eina. Fer á morgun klukkan 14 og er orðin nett stressuð fyrir það. Það er nefnilega svo hrikalega naumt skammtað tímanum í prófum hérna. Við eigum að velja eitt efni af þremur til að skrifa um og höfum bara klukkutíma til þess. Eins og gefur að skilja þá er ekki mikið pláss fyrir mistök á svo stuttum tíma. En ég hugga mig við að þetta er mjög líklega síðasta prófið mitt EVER! Maður á reyndar aldrei að segja aldrei... En ég verð ansi glöð þegar ég klára á morgun:)

Svo ætla ég að reyna að horfa á undankeppnina í Júró um kvöldið. Var reyndar að fatta að Bretar eru ekkert að sýna hana af því að þeir eru komnir í úrslitin. Ég held samt ennþá í vonina að þetta verði sýnt á netinu hjá Rúv eða öðrum skandinavískum stöðvum. Ég er annars orðin eitthvað óvenju spennt yfir þessari keppni - getur reyndar verið að ég sé eitthvað að rugla þessu saman við prófaspenninginn:)

Hugsið til mín á morgun, takk!

p.s. Það skeit á mig fugl í dag! Ég kýs að líta á það sem gæfumerki!

mánudagur, maí 02, 2005

Það er komið sumar, tralalala!

Jæja ætli það sé ekki kominn tími á nýtt blogg... orðin eitthvað leið á haggisblogginu. Maímánuður hefst svona líka vel hérna í St.And. Í dag er 17 stiga hiti og sól á köflum. Erum búin að taka okkur tvær göngutúrapásur frá lærdómnum og njóta þess í botn að geta gengið um sæmilega léttklæddur. Við erum nú reyndar bara mestu kuldaskræfurnar hérna held ég, flestir aðrir eru bara komnir á strandarsandala, pils og stuttbuxur. Þetta lið er nú reyndar dálítið klikkað finnst mér, um leið og sólin glennir sig eitthvað þá er fólk bara komið úr - og ég ennþá með trefilinn!

Helgin var annars mjög fín, afköstin voru bara ágæt í lærdómnum og svo nýttum við góða veðrið í smá útiveru. Fórum í mega-göngutúr á laugardeginum, nánast bara í kringum bæinn allan. Sáum kanínur, íkorna, fullt af fallegum kirsuberjatrjám og svona ca. þúsund hunangsfluguhlussur. Já, vorið er sko komið hérna!

Annars gengur allt á áætlun hjá Ívari og mér held ég bara líka. Er að skrifa síðustu ritgerðina sem ég skila í lok vikunnar og svo hef ég viku til að gera rannsóknartillöguna sem ég þarf að halda fyrirlestur um 13.maí fyrir fullum sal af fólki úr deildinni, jei! Eftir það tekur bara við próflestur í 5 daga og 19.maí verð ég svo búin með formlegt nám hérna og við taka lokaritgerðarskrif. En það verður sko tekin smá pása eftir prófið!

Vona að þið hafið það öll gott, hvar sem þið eruð!
Ciao a tutti!

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Gleðilegt sumar :)

Langaði bara rétt að óska öllum gleðilegs sumars, held alveg örugglega að það sé rétt hjá mér að Sumardagurinn fyrsti sé í dag. Ég er ekki búin að fá neina sumargjöf ennþá en lenti í mjög skemmtilegu atviki í morgun. Var á leiðinni til tölfræðikennarans míns til að ræða verkefni við hann og á leiðinni þangað gekk ég í gegnum þröngt húsasund. Ég var niðursokkin í skemmtilegar tölfræðipælingar á leiðinni og brá því ekkert smá mikið þegar skyndilega opnast dyr og út kemur þessi þvílíka vatnsgusa! Beint framan í mig! Það voru sem sagt einhverjir strákar að leika sér inni í húsinu og einn rýkur á dyrnar eltur af öðrum með fullan brúsa af köldu vatni. Ég varð sem sagt svo heppin að lenda í miðjum leiknum! Ágætis sumargjöf sem sagt og ég kom holdvot til kennarans. Eftir þetta er reyndar dagurinn bara búinn að fara batnandi, náði að leysa tölfræðiverkefni og fékk til baka ritgerð og mjög góða einkunn fyrir hana. Er bara alveg í skýjunum og svo er golfið á eftir í þokkabót:)

Vona að þið eigið öll súper góðan dag:)

sunnudagur, apríl 10, 2005

Komin til Skotlands!

Jæja þá er maður komin út eftir frábæra dvöl heima í tvær vikur. Þótt tímanum heima hafi að mestu verið eytt í lærdóm þá náði maður líka að kíkja á fólkið sitt í Reykjavík og á Skaganum. Skruppum meira að segja í smá golf á Skaganum:)

En nú er það síðasta törnin hérna úti áður en maður fer heim í júní. Já þetta verður sko törn! En Ívar ætlar að koma til mín næstu helgi og vera eins lengi og ritgerðin leyfir.

Hérna er annars farið að hlýna nokkuð, hitinn í dag í 15 stigum og búist við meiri hita á morgun. Fór í göngutúr áðan og það var fullt af fólki í göngu á ströndinni og í bænum. Það er greinilega farið að vora hérna sem betur fer.

Jæja, aftur í ritgerðarskrif:)

fimmtudagur, mars 17, 2005

Ein í kotinu

Jæja þá er Ívar minn farinn til Köben enn einu sinni. Alltaf jafnerfitt að kveðjast, get bara ekki vanist því. Endilega skrifið inn skemmtileg comment til að hressa mig við:(

þriðjudagur, mars 08, 2005

Vorið er að koma!

Sælt veri fólkið. Hérna í St Andrews er bara vor í lofti, sól og blíða, og um leið verður lundin einhvern veginn léttari þótt maður hangi að mestu inni að læra. Við leyfum okkur reyndar þann lúksus að fara í góða göngutúra inn á milli.

Tíminn líður annars alveg svaðalega hratt, verðum bara komin heim í páskafrí eftir rúmar 2 vikur. Komum bæði 25. mars og verðum til 8.apríl. Síðan var ég að slá því föstu að vera heima í sumar. Fékk leyfi hjá prófessornum mínum að vera að mestu heima. Kem þó líklega í stutta skreppi hingað. Bókaði far heim 9.júní og mútta og pabbi ætla að koma og vera með mér hérna seinustu vikuna. Pabbi verður væntanlega að fussa og sveia yfir öllum breytingunum sem hafa orðið á bænum hans frá því hann sá hann síðast. Ég verð svo vonandi búin að viða að mér flestum heimildunum áður en ég fer og get svo bara rutt út úr mér 15000 orðum á no time! Verður alveg frábært að hanga inni í allt sumar að skrifa ritgerð. Er eiginlega bara að vona að það verði leiðindasumar hehe. Þyrfti í rauninni bara að skella mér svo í sólarlandaferð í september ;) - verst að það verður ábyggilega ekki mikið eftir í buddunni fyrir svoleiðis lúxus.

Annars er nú ekki mikið að frétta. Ætlum reyndar að skreppa til Aberdeen næstu helgi og vera eina nótt hjá Agli samnemanda okkar úr landafræðinni heima. Hann er þar í doktorsnámi ásamt konu og börnum. Kata, annar samnemandi, sem er í master í Edinborg ætlar að pikka okkur upp hérna á laugardaginn og svo verður bara þeyst norður eftir:) Verður skemmtilegt að sjá aðeins meira af Skotlandi.

Cheers!

miðvikudagur, mars 02, 2005

Bloggibloggiblogg!

Ákvað að koma með eitt oggulítið blogg og reyna að stoppa þennan veðurfréttavítahring sem þetta blogg er komið í:) Ekki svo sem mikið að frétta, annað en það að ég er alveg afskaplega hamingjusöm með að vera búin að fá kallinn minn í heimsókn. Við erum búin að hafa það mjög gott frá því að hann kom, vera dugleg að læra og líka dugleg að slappa af á kvöldin. Ætlum að skreppa í kvöld til Siggu og Elvars og elda gómsætt nautakjöt og horfa svo á Desperate Housewives eins og venja er á miðvikudagskvöldum hjá okkur Siggu. Best að reyna að koma Ívari upp á þetta líka. Afspyrnuskemmtilegir þættir þegar maður er kominn inn í þá:) Held það eigi að byrja að sýna þá heima bráðum...

jæja ætlum að drífa okkur í mat núna... út í haglélið! (úps! missti þetta út úr mér;))

laugardagur, febrúar 19, 2005

5 ár að baki:)

Langaði bara aðeins að deila því með ykkur að við Ívar erum búin að vera saman í 5 ár í dagJ Frekar leiðinlegt að geta ekki eytt deginum saman en við bætum það upp þegar hann kemur til mín næstu helgi.

Það er virkilegt kuldaveður í St.Andrews núna og í augnablikinu er haglél! Það er reyndar búið að vera hið mesta vorveður síðan ég kom frá Danmörku, sól og frekar hlýtt. Annars skiptir veðrið mann svo sem ekki miklu máli í þessum litla bæ, tekur nánast 5 mínútur að fara hvert sem maður vill, í búðina, á kaffihús eða í skólann. Stundum á ég það til að fá smá innilokunarkennd vegna þess hve þetta er lítill bær.

En núna er 2.misseri í skólanum byrjað af krafti og er ég núna í 6 kúrsum sem mér finnst frekar mikið og ég er á hverjum degi í skólanum. Að vísu er bara próf í einum af kúrsunum í maí, hinum lýk ég með ritgerða- og verkefnaskilum. Mér líst mun betur á kúrsana þetta misserið en fyrir jól, fyrir utan einn sem er bara púra heimspeki!- ekki alveg my cup of tea en maður þrælar sér í gegnum þetta. Ofan á þessa 6 kúrsa þarf ég að vera að huga að því að gera rannsóknartillögu sem ég þarf að skila í maí. Svo er ég bara eiginlega búin að ákveða að koma heim í byrjun júní og skrifa ritgerðina að mestu heima. Ég vona að það gangi upp því að ég fæ enga sérstaka aðstöðu hérna og nenni ómögulega að hírast heilt sumar í litla herberginu mínu. Svo er ég bara búin að fá nóg af því að vera fjarri Ívari, ættingjum og vinum.

Jæja, best að snúa sér aftur að fyrirlestrarskrifum hérna á bókasafninu. Hafið það gott og sláið endilega á þráðinn sem fyrst:)

þriðjudagur, desember 14, 2004

Jólin koma, jólin koma!
Jæja þá eru bara 3 dagar í heimför!! Get varla beðið eftir að hitta alla. Loksins er maður búinn með allar ritgerðirnar og getur andað aðeins léttar. Þetta er nú búin að vera meiri törnin. Byrjaði að skrifa í lok október og var að klára þetta núna, usss. 12500 orð að baki púffff. Núna tekur bara við að safna saman öllu draslinu sem ég þarf að taka með heim til að lesa fyrir prófin tvö sem ég fer í. Verður alveg súperskemmtilegt að eyða jólafríinu í það. Er nú samt eiginlega búin að ákveða að taka mér hlé í viku eða svo og safna kröftum, það veitir sko ekki af.

Hafið það gott öll þangað til við sjáumst:)



laugardagur, desember 04, 2004

Dauði og djö....!!!!

Hvað haldiði að hafi gerst. Fór í labbitúr áðan og gekk framhjá staðnum þar sem ég geymi hjólið mitt, hérna við endann á götunni og sé að það er horfið!!! argh! Flotta yndislega fjallahjólið með dempurum og allt! usssumfussumsvei! Er bara hundfúl. Ljótu ribbaldar hérna í St. Andrews. Alltaf átti ég nú von á að fáknum yrði stolið í Köben sem er alræmd fyrir hjólaþjófa en í saklausa litla skoska bænum hef ég engar áhyggjur haft. Fór til löggunar og gaf skýrslu. Þeir ætla að ganga í málið og tékka á þekktum þjófum hérna. Ég er nú ekkert voðalega bjartsýn. Fór til öryggis í hjólabúðina í bænum og sagði þeim að ef einhver kæmi til að gera við gíra á bláu Jamis hjóli þá ættu þeir að handsama viðkomandi og hringja strax í mig og lögguna. Ég hafði sjálf verið á leiðinni með hjólið í viðgerð, gírarnir eitthvað að klikka. Ansi fegin að ég var ekki búin að gera við það fyrir þjófana. Var að spá í að fara og kemba strætin í leit að hjólinu en ákvað að það væri nú kannski bara sniðugra að fara í að byrja á síðustu ritgerðinni sem þarf að skila... Já það saxast óðum á verkefnin sem betur fer og nú bara 2 vikur í heimför:)

Ætla að fara til Siggu og Elvars og drekkja sorgum mínum í kvöld... böhöhöhöhhhhhhh!!

laugardagur, nóvember 27, 2004

Sælt veri fólkið

Það er víst liðið svolítið langt síðan maður hefur sett eitthvað hérna inn. En núna er ég sem sagt að morkna yfir ritgerðarskrifum og ákvað að taka mér smá hlé til að segja ykkur hvað hefur dregið á mína daga hérna. Frá því að Ívar fór þá hefur verið brjálað að gera í skólanum og á eflaust eftir að verða brjálað næstu 3 vikur. Ég er búin með tvö tölvuverkefni, eina ritgerð og hálfnuð með aðra sem ég stefni á að reyna að klára sem fyrst svo ég geti farið að skrifa þá þriðju, meiri geðveikin!! Ekkert nær maður svo að lesa fyrir kúrsana sem próf verða í þannig að jólin fara í frumlestur á ansi miklu efni fyrir próf. Stressið því ansi mikið farið að gera vart við sig. Nú út af allri þessari verkefnavinnu þá hefur nú ekki verið mikið um skemmtun, nema þá aðallega golfið, sem ég er alveg að fíla betur og betur með hverjum tímanum og er búin að ákveða að fara á framhaldsnámskeið eftir jól. Hlakka svo bara til að fara að spreyta mig á golfvöllunum heima:).

Svo er nú gaman að segja frá því að ég er komin í fóstur hjá fjölskyldu hérna í bænum ahaha. Frétti af því að erlendir stúdentar gætu fengið svokallaðar “contact” fjölskyldur hérna sem byðu þeim heim til sín. Ég ákvað að skella mér á eina slíka og fékk strax samband við konu sem heitir Elspeth sem býr með tvíburasonum sínum tveim hérna og hún bauð mér heim til sín áðan í kaffi. Elspeth er sálfræðingur og er nýskilin og það var mjög skemmtilegt að koma í heimsókn til hennar. Það var reyndar bara annar tvíburinn heima og hann virkaði vel á mig. Svo eiga þau líka lítinn hund sem heitir Heidi og ekki var það nú verra. Við spjölluðum um alla heima og geima, Ísland, pólitík, tungumál og allt þar á milli. Er bara strax farin að hlakka til næstu heimsóknar, sem verður kannski fyrir jólin áður en ég fer heim. Hún sagðist ætla að bjóða mér ef þau næðu að kaupa jólatré fyrir þann tíma og þá gæti hún eldað eitthvað jólalegt eins og “minced pie” – jibbííí, hljómar vel. Meira hvað þessir Bretar eru mikið fyrir alls konar pie, get ekki sagt að ég sé neitt svakalega hrifin af þeim.

Ég er annars farin að hlakka mikið til að koma heim 17.des. Verð í rúmar þrjár vikur þannig að ég næ nú að slappa eitthvað af þrátt fyrir prófalestur, það verður ansi kærkomið. Ég efast um að ég skrifi meira inn hérna fyrir jól, verð bara að stóla á að Ívar segi frá einhverju skemmtilegu.

Jæja, aftur að ritgerðinni....

Bæjó

This page is powered by Blogger. Isn't yours?